Fótbolti

„Segir við mig á hverjum degi að ég sé sú besta í heimi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucy Bronze hefur þegar unnið Meistaradeildina á þessu ári og nú er hún með augum á heimsmeistaratitlinum. Verkefnin verða hins vegar ekki erfiðari en verkefni kvöldsins.

Enska landsliðið mætir heimsmeisturum Bandaríkjanna í Lyon í kvöld og í boði er sæti í úrslitaleik HM í Frakklandi.

Lucy Bronze er ein af stjörnuleikmönnum franska liðsins Lyon sem vann Meistaradeildina í maí en hlutverk hennar í enska landsliðinu er jafnvel enn stærra.

Phil Neville, þjálfari enska landsliðsins, hefur verið óhræddur við yfirlýsingarnar þegar kemur að Lucy Bronze. Hún spilar sem hægri bakvörður og er mikilvæg fyrir sóknarleikinn auk þess sem fáir komast fram hjá henni hinum megin á vellinum.

Eftir leikinn á móti Noregi í átta liða úrslitunum, þar sem Lucy Bronze lagði upp fyrsta markið eftir glæsilegan sprett og skoraði síðan lokamarkið með frábæru skoti, þá var Neville í miklum yfirlýsingaham.

Neville sagði að Lucy Bronze væri besta knattspyrnukona heims eftir leikinn en Lucy sjálf var ekki alveg eins kokhraust á blaðamannafundi fyrir undanúrslitaleikinn á móti Bandaríkjunum. Hér fyrir neðan má sjá hana á blaðamannafundinum fyrir undanúrslitaleikinn.





„Phil segir við mig á hverjum degi að ég sé sú besta í heimi,“ sagði Lucy Bronze á blaðamannafundinum en hún þvertekur fyrir það sjálf að hún sé sú besta í heimi.

„Það er yndislegt að hann hafi svona mikla trú á mér en þetta setur enga pressu á mig. Mér finnst sjálfri að ég sé ekki alveg komin þangað enn þá. Ég er enn að reyna að bæta minn leik og verða betri leikmaður. Ég stefni að því á hverjum degi,“ sagði Lucy Bronze

„Það er gaman að fá svona mikið hrós frá honum þótt að ég trúi honum ekki. Ég held að ég komist aldrei þangað en ég mun reyna mitt besta,“ sagði Lucy Bronze.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×