Fótbolti

Stjarna bandaríska liðsins á HM var bara klappstýra í gær: Ætlar að ná úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe fagnar hér í leikslok með liðsfélögum sínum.
Megan Rapinoe fagnar hér í leikslok með liðsfélögum sínum. Getty/Jean Catuffe
Bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta en komið í enn einn úrslitaleikinn á heimsmeistaramóti eftir 2-1 sigur á Englandi í gær. Bandarísku stelpurnar unnu leikinn þrátt fyrir að leika án stærstu stjörnu liðsins.

Það kom mörgum í opna skjöldu þegar hin litíka Megan Rapinoe var ekki í byrjunarliði bandaríska landsliðsins á móti Englandi í gær.

Sjónvarpsvélarnar voru mikið á Megan Rapinoe sem tók ekki þátt í upphitun liðsins að öðru leyti nema að hvetja sínar stelpur áfram.

Megan Rapinoe hafði skorað öll fjögur mörk bandaríska liðsins í sigrinum á Spáni og Frakklandi í útsláttarkeppninni. Þrátt fyrir mikilvægi hennar ætlaði þjálfarinn Jill Ellis ekki að taka neina áhættu með hana.





Rapinoe hafði tognað aftan í læri í leiknum á undan en Jill Ellis talaði um eftir leikinn í gær að þetta væri lítil tognun. Megan Rapinoe gerði líka sjálf lítið úr meiðslunum og hún ætlar sér að ná úrslitaleiknum á sunnudaginn. Þar mæta þær bandarísku annaðhvort Hollandi eða Svíþjóð sem spila seinni undanúrslitaleikinn í kvöld.

„Þetta er varla tognun en ég gat samt ekki spilað þennan leik. Læknaliðið hélt að ég gæti ekki haldið þetta út. Við höfum verið að tala um breiddina okkar í mánuð eftir mánuð og gegnum allt þetta heimsmeistaramót. Við sýndum hana í kvöld,“ sagði Megan Rapinoe eftir leikinn.

„Við töldum að þetta væri besta leiðin, ekki aðeins fyrir mig sjálfa heldur einnig fyrir liðið,“ sagði Megan Rapinoe sem var því klappstýra í þessum spennandi leik. Hún var síðan allt í öllu í fagnaðarlátunum eftir leikinn.





Megan Rapinoe tognaði í leiknum á móti Frakklandi en fór ekki alveg strax út af vellinum. Hún hefur skorað fimm mörk í fjórum leikjum í keppninni.

„Ég býst við því að vera orðin góð í úrslitaleiknum og klár í slaginn. Þetta er að lagast hjá mér,“ sagði Megan Rapinoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×