Fótbolti

Sílemenn eiga enn möguleika á að jafna 72 ára gamalt afrek Argentínumanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sílemaðurinn Alexis Sánchez fagnar öðru marka sinna í keppninni í ár.
Sílemaðurinn Alexis Sánchez fagnar öðru marka sinna í keppninni í ár. Getty/ Buda Mendes
Seinni undanúrslitaleikur Copa America 2019 fer fram í kvöld en í boði er úrslitaleikur á móti Brasilíu á Maracana á sunnudaginn.

Sílemaðurinn Alexis Sánchez fær þarna tækifæri til að upplifa betri tíma inn á knattspyrnuvellinum en á nýloknu tímabili með Manchester United sem reyndist honum mjög erfitt. Sánchez þarf að sanna það fyrir heiminum að hann sé ekki búinn að vera og góður leikur hjá honum í kvöld væri risaskref í þá átt.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan tuttugu mínútur yfir miðnætti.

Það er nokkur tími liðin síðan að eitthvað annað lið en Síle gat kallað sig Suðurameríkumeistara í knattspyrnu karla. Síle getur í kvöld komist í þriðja úrslitaleikinn í röð. Úrúgvæ vann keppnina árið 2011 en enginn gefur náð að stoppa Síle í síðustu tveimur keppnum.

Brasilíumenn komust fyrst í úrslitaleikinn eftir sigur á Argentínu í fyrri undanúrslitaleiknum í nótt. Þar var á ferðinni hinn eini og sanni Clasico leikur Suður-Ameríku en í viðureign Síle og Perú í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld er aftur á móti uppgjör Kyrrahafsstrandþjóðanna.

Síle getur orðið fyrsta þjóðin í 72 ár til að vinna þrjár Copa America keppnir í röð en það gerðist síðast þegar Argentínumenn unnu þrjár keppnir í röð frá 1945 til 1947.

Síle vann 2015 og 2016 og í bæði skiptin eftir vítaspyrnukeppni og í bæði skiptin mætti Síle Lionel Messi og félögum í Argentínu í úrslitaleiknum.

Síle varð í öðru sæti á eftir Úrúgvæ í sínum riðli í riðlakeppni Copa America í ár en Perú sló síðan Úrúgvæ út úr átta liða úrslitunum. Síle vann á sama tíma Kólumbíu í vítakeppni.

Síle vann 2-1 sigur á Perú í undanúrslitunum fyrir fjórum árum en þá skoraði Eduardo Vargas bæði mörkin. Eduardo Vargas er markahæstur Sílemanna í keppninni í ár ásamt Alexis Sánchez. Báðir hafa skorað tvö mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.