Innlent

Vill endurskoða verklag við brottvísanir

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna situr í þverpólitískri þingmannanefnd um útlendingamál.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna situr í þverpólitískri þingmannanefnd um útlendingamál.

Endurskoða þarf verklag við brottvísanir hælisleitenda til Grikklands að mati þingmanns Vinstri Grænna sem á sæti í þingmannanefnd um útlendingamál. Þær séu ekki forsvaranlegar í mörgum tilvikum. Hann segir að nefndin sem á að sinna eftirliti með framkvæmd laganna hafi verið bitlaus.

Boðað hefur verið til mótmæla við Hallgrímskirkju á morgun vegna brottvísana barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í næstu viku verður hin fjórtán ára gamla Zainab Safari og fjölskylda hennar send til Grikklands en bekkjarfélagar hennar í Hagaskóla hafa undanfarið barist fyrir áframhaldandi veru hennar. Þá hefur brottvísun afgangskra feðga einungis tímabundið verið frestað eftir að annar sonurinn fékk taugaáfall vegna kvíða. Það sem af er ári hefur 75 börnum verið synjað um alþjóðlega vernd.

Endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi. Hins vegar hefur endursendingum ekki verið hætt hafi börnin þegar hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi. UNICEF hefur bent á að ekki sé ásættanlegt með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að hagsmunir barna séu metnir ólíkir á grundvelli lagalegrar stöðu. Raunveruleg staða í flóttamannabúðum í Grikklandi sé sú sama.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að þverpólitísk þingmannanefnd eigi að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri Grænna, sem situr í nefndinni, segir hana lítið hafa gert og í raun verið bitlausa. 

„Við höfum núna síðustu vikur beðið eftir því að ráðuneytin skoði það hvernig sé hægt að endurmóta nefndina þannig að hún nái betur styrk sínum. Þetta snýst í rauninni um það að nefndin geti unnið miklu betur og meira með stjórnsýslunni við úttekt á framkvæmdinni," segir Andrés Ingi.

Í mörgum tilvikum sé ekki forsvaranlegt að senda fólk í viðkvæmri stöðu, sem glímir við veikindi eða með börn, aftur í hælisleitendakerfið í Grikklandi. Þrátt fyrir að endurskoðun á verkferlum sé langtímaverkefni nefndarinnar þurfi að bregðast strax við.

„Það að bregðast við ástandinu í gríska hæliskerfinu er kannski eitthvað sem þolir enga bið og kallar ekkert á flókna útfærlsu. Þetta er bara ákvörðun sem þarf að taka á réttum stað. Og það er uppi í ráðuneyti," segir Andrés Ingi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.