Fótbolti

Phil Neville ekkert á því að hætta með enska kvennalandsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Neville hefur staðið sig vel í sínu fyrsta starfi sem aðalþjálfari. Hér hughreystir hann Ellen White eftir tapið í undanúrslitaleiknum.
Phil Neville hefur staðið sig vel í sínu fyrsta starfi sem aðalþjálfari. Hér hughreystir hann Ellen White eftir tapið í undanúrslitaleiknum. Getty/Marc Atkins
Phil Neville er ákveðinn að halda áfram sem þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta en liðið rétt missti af sæti í úrslitaleik HM í fyrsta sinn eftir naumt tap á móti ríkjandi heimsmeisturum Bandaríkjanna.

Phil Neville hefur sett stefnuna á tvö næstu stórmót samkvæmt því sem breska ríkisútvarpið hefur eftir barónessunni Jane Campbell sem er yfir kvennastarfi breska knattspyrnusambandsins.

Enska landsliðið hefur nú tapað í undanúrslitum á þremur stórmótum í röð en fær tvö önnur tækifæri á næstu tveimur árum.





Phil Neville mun stýra breska liðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 og svo verður enska landsliðið á heimavelli á Evrópumótinu 2021.

„Phil var að tala um Tókýó í morgun og um EM á heimavelli og það sem hann ætlaði að gera í sambandi við þessi tvö mót,“ sagði Jane Campbell.

„Hann gerði samning um þriggja ára ferðalag og hann ætlar að standa við það. Við myndum líka elska það að hafa hann áfram,“ sagði Campbell.

Phil Neville er fyrrum leikmaður Manchester United og enska karlalandsliðsins. Hann tók við enska kvennalandsliðinu árið 2018 og er þetta fyrsta starf hans sem aðalþjálfari.

Enska landsliðið á eftir einn leik á HM en liðið mætir Svíþjóð í leiknum um bronsið á laugardaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×