Fótbolti

Holland varð að einu besta liði heims í kjölfar þess að Dagný sendi þær heim af EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollenska landsliðið fagnar sigri í gær.
Hollenska landsliðið fagnar sigri í gær. Vísir/Getty
Hollenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er ríkjandi Evrópumeistari og er nú komið alla leið í úrslitaleikinn á HM í Frakklandi þar sem liðið mætir ríkjandi heimsmeisturum Bandaríkjanna.

Hollenska landsliðið hafði aldrei spilað til úrslita á stórmóti fyrir Evrópumótið 2017 en er nú að fara að spila sinn annan úrslitaleik í röð. Það hefur mikið breyst hjá hollenska landsliðinu á sex árum en sumarið 2013 olli liðið miklum vonbrigðum á EM í Svíþjóð.

Íslenska kvennalandsliðið var með þeim hollensku í riðli á EM í Svíþjóð 2013 og sendi þær heim með því að vinna 1-0 sigur í leik liðanna í lokaumferð riðlakeppninnar. Íslensku stelpurnar komust í átta liða úrslitin en Holland endaði í neðsta sæti riðilsins og var úr leik.

Það var Dagný Brynjarsdóttir sem skoraði eina mark leiksins með laglegum skalla á 29. mínútu leiksins. Seinna kom í ljós að Dagný hafði spilað þennan leik fótbrotin. Hún hafði brotið bátsbeinið rétt fyirr neðan ökkla. Dagný harkaði af sér og var hetja íslenska liðsins.

Klippa: Íslenska landsliðið tryggði sér sæti í 8 liða úrslit á EM


Hollenska landsliðið sýndi strax batamerki á HM í Kanada 2015 þar sem liðið komst í sextán liða úrslitin en þetta var fyrsta heimsmeistaramót liðsins. Tveimur árum síðan fóru þær hollensku á kostum á heimavelli og urðu Evrópumeistarar eftir 4-2 sigur á Danmörku í úrslitaleiknum.

Tveir af markaskorurum liðsins í úrslitaleik EM 2017, Lieke Martens og Sherida Spitse, höfðu spilað leikinn örlagaríka á móti Íslandi. Liðið var hins vegar búið að skipta framherjanum Manon Melis út fyrir ungstirnið Vivianne Miedema sem skoraði tvívegis í úrslitaleiknum.

Hollenska landsliðið hefur síðan fest sig í sessi með frammistöðu sinni á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í ár. Liðið hefur unnið alla sex leiki sína í keppninni þar á meðal Japan í sextán liða úrslitum, Ítalíu í átta liða úrslitum og loks Svíþjóð í undanúrslitunum í gær.

Lieke Martens og Sherida Spitse eru enn þá í stórum hlutverkum og aðeins einn annar leikmaður spilaði bæði leikinn á móti Íslandi og undanúrslitaleikinn í gær. Það var Daniëlle van de Donk. Það er því óhætt að segja að Sarina Wiegman hafi hreinsað vel til í landsliðinu þegar hún tók við.

Holland mætir Bandaríkjunum í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Bandaríska liðið er miklu sigurstranglegra fyrir leikinn en það verður fróðlegt að sjá hvað þær hollensku ná að bíta frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×