Fótbolti

Kraftaverkið í Bern er 65 ára í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fritz Walter, fyrirliði Vestur-Þýskalands, með heimsmeistarabikarinn.
Fritz Walter, fyrirliði Vestur-Þýskalands, með heimsmeistarabikarinn. Getty/ Ferdi Hartung
Einn óvæntasti sigur knattspyrnusögunnar vannst á þessum degi fyrir 65 árum síðan.

Þjóðverjar, þá Vestur-Þjóðverjar, urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn 4. júlí 1954 eftir 3-2 sigur á Ungverjalandi í úrslitaleiknum í Bern í Sviss.

Þýska liðið kom þá í veg fyrir að lið, sem margir telja vera eitt besta knattspyrnulandslið sögunnar, náði að verða heimsmeistarar.

Ungverjar voru Ólympíumeistarar frá 1952 og höfðu fyrir úrslitaleikinn leikið 32 leiki í röð án þess að tapa. Gulllið Ungverja var kallað „Mighty Magyars“ og í liðinu voru stórkostlegir knattspyrnumenn eins og framherjarnir Sándor Kocsis og Ferenc Puskás, sóknartengiliðurinn Nándor Hidegkuti, miðvörðurinn József Bozsik, kantmaðurinn Zoltán Czibor og markvörðurinn Gyula Grosics.

Ungverska landsliðið var líka búið að eiga frábæra heimsmeistarakeppni, hafði unnið alla fjóra leiki sína og skorað í þeim 25 mörk eða 6,3 mörk að meðaltali í leik.Það sem gerði úrslitin í úrslitaleiknum enn ótrúlegri var að Ungverjar höfðu unnið 8-3 sigur á Vestur-Þjóðverjum í riðlakeppninni.Ungverska landsliðið komst líka í 2-0 eftir aðeins átta mínútna leik í úrslitaleiknum og það stefndi því í annan stórsigur.

Vestur-Þjóðverjar minnkuðu muninn á 10. mínútu og jöfnuðu metin átta mínútum síðar. Helmut Rahn skoraði jöfnunarmarkið og síðan sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.  

Sigur Vestur-Þjóðverja er almennt talinn hafa hjálpað þjóðinni að rífa sig upp eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Ungverjar náðu aftur á móti aldrei upp á sama stall. Leikmenn eins og Sándor Kocsis og Ferenc Puskás spiluðu ekki fyrir ungverska landsliðið eftir að uppreisnin í Ungverjalandi braust út árið 1956.

Vísir/Getty
Vísir/GettyFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.