Umfjöllun og viðtöl: KR - Stjarnan 1-0 | KR vann fyrsta leikinn með bráðabirgðaþjálfara

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Ásdís Karen Halldórsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. vísir/daníel þór
Markaþurrkur Stjörnunnar hélt áfram í kvöld en þær töpuðu 1-0 í kvöld gegn KR. Stjarnan er ekki búin að skora í 5 leikjum í röð núna og það þarf vægast sagt á breytingum að halda. KR spyrntu sér hinsvegar fa botni Pepsi Max deildarinnar með þessum sigri. Grace Maher skoraði sigurmarkið á 90. mínútu en KR voru búnar að ógna mikið í leiknum. 

 

KR byrjuðu leikinn betur en Stjarnan átti erfitt með að tengja saman sendingar í upphafi leiks. Ásdís Karen Halldórsdóttir átti fyrsta skot leiksins þegar um korter var búið, þá lét hún vaða fyrir utan teig en boltinn sleikti stöngina og fór framhjá.

 

Stjarnan komst aðeins betur inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn en þeim gekk ágætlega að byggja upp sóknir þegar þær spiluðu meðfram jörðinni. Það vantaði hinsvegar uppá gæðin í teignum hjá Stjörnunni og fengu þær bara eitt almennilegt færi í  fyrri hálfleik. Edda María Birgisdóttir fékk besta færi Stjörnunnar í fyrri hálfleik eftir fyrirgjöf frá Sóley Guðmundsdóttur. Edda fékk boltann í kringum vítapunkinn en skotið fór yfir og staðan var því ennþá 0-0. 

 

KR fengu nokkur virkilega góð færi þegar leið á fyrri hálfleikinn. Grace Maher negldi boltanum í slánna úr aukaspyrnu sem hefði líklegast farið inn ef hún hefði verið nokkrum sentimetrum neðar. Gloria Douglas fékk boltann einu sinni á hættulegum stað og hleypti af stað góðu skoti sem Berglind varði vel. 

 

Katrín Ómarsdóttir var tvisvar undir lok fyrri hálfleiks nálægt því að koma KR yfir. Fyrst fékk hún boltann við vítapunktinn eftir fyrirgjöf frá Tijönu Krstic en hitti boltann ekki nægilega vel og hann fór útaf. Katrín var aftur komin í ágætis stöðu í teignum nokkrum mínutum síðar þegar Sandra Dögg Bjarnadóttir gaf á hana góða sendingu. Katrín var næstum því búin að taka boltann niður á hættulegum stað áður en Anna María Baldursdóttir potaði honum í burtu. Anna María var eins og klettur í vörn Stjörnunnar í kvöld og það sást vel hversu mikið hún bindur þessa vörn Stjörnunnar saman. 

 

Stjarnan byrjuðu seinni hálfleikinn með látum en eftir minna en mínútu var Diljá Ýr Zomers komin í ágætis færi sem hún náði ekki að nýta. Því miður fyrir Stjörnuna var þetta ekki mikill fyrirboði um það sem átti eftir að gerast í leiknum. Garðbæingarnar náðu að skapa sér einhver hálffæri en þetta vantaði dauðafærið til að losa endanlega um markastífluna. Jasmín Erla Ingadóttir átti tvö bestu skot Stjörnunnar í seinni hálfleik en hvorugt rataði á markið. Seinna var þó eftir glæsileg tilþrif þar sem hún fór illa með varnarmann KR. 

 

KR fengu nokkrum sinnum færi þar sem varnarmenn Stjörnunnar þurftu að verja markið. Háir boltar voru að valda Berglindi Hrund markmanni Stjörnunnar dálitlum vandræðum í dag. Hún missti boltann nokkrum sinnum og það var hálf ótrúlegt að KR hafi ekki nýtt nein af þeim færum sem Berglind gaf þeim. Öll þessi færi komu eftir fyrirgjafir og má segja að KR hafi átt í erfiðleikum með að skapa sér færi meðfram jörðinni.

 

KR voru að banka á dyrnar að skora mest allan seinni hálfleikinn og það má segja að það hafi verið sanngjarnt þegar þær skoruðu á 90. minútú. Grace Maher skoraði þá fyrir KR eftir listilegan snúning í teignum. Skotið fór af varnarmanni Stjörnunnar sem gerði skotið óverjanlegt fyrir Berglindi í marki Stjörnunnar.

Mikil barátta í leiknum í kvöld.vísir/daníel
Af hverju vann KR?

Þær sköpuðu sér fleiri færi og Grace Maher nýtti sitt besta færi frábærlega. Það vantaði alltaf eitthvað uppá hjá Stjörnunni sóknarlega í kvöld en KR náðu einfaldlega bara að klára þetta á dramatískan hátt í kvöld.

 

Hverjar stóðu upp úr?

Þær Grace Maher og Betsy Hassett á miðjunni hjá KR áttu góðan leik í kvöld. Þær stoppuðu oft skyndisóknir Stjörnunnar auk þess sem þær sýndu gæði sín sóknarlega. Grace Maher er án efa maður leiksins hinsvegar eftir þetta frábæra sigurmark sitt. 

 

Ásdís Karen Halldórsdóttir og Gloria Douglas gerðu sig nokkrum sinnum líklegar til að koma KR yfir í leiknum. Þær voru duglegar að valda usla og reyna á Berglindi í marki Stjörnunnar. 

 

Jasmín Erla Ingadóttir var best sóknarlega í liði Stjörnunnar í kvöld. Hún átti frábærar sóknir þar sem hún hefði getað búið til mark en samt fannst mér alltaf vanta eitthvað uppá. Fín frammistaða hjá henni en ég veit að hún getur gert meira til þess að Stjarnan skori sitt fyrsta mark síðan í maí.

 

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk illa að koma sér í færi og þegar þær komust síðan í færi þá gekk þeim skelfilega að vinna úr þeim. Þær eru að bæta við sig leikmönnum sem gætu verið spennandi en annars stefnir í ansi hrein lök í Garðarbænum á næstunni.

 

Hvað gerist næst?

Stjörnustelpur halda áfram leit sinni að mörkum á Selfossi næstkomandi mánudag. KR reyna að strengja saman sigrum á heimavelli gegn HK/Víking á þriðjudaginn.

Dilja Ýr með varnarmenn KR í kringum sig.vísir/daníel þór
Ragna Lóa: Olga Fersæth lagði upp þennan leik

„Það kom ekkert annað til greina en að vinna. Við vorum alltaf ákveðnar í því að labba héðan frá þessum velli með 3 stig. Þetta er okkar heimavöllur og við teljum okkur vera sterkar á honum,” sagði Ragna Lóa Stefánsdóttir bráðabirgðaþjálfari KR eftir leik kvöldsins aðspurð hvort eitthvað annað en sigur hafi komið til greina í kvöld.

 

Grace Maher kom KR yfir með marki á 90. mínútu.  KR voru búnar að banka á dyrnar allan seinni hálfleikinn og sást vel hversu mikla ánægju KR höfðu af því að skora.

 

„Tilfinningin var bara stórkostleg. Til þess að vinna leik þá þarf að skora og það hefur háð okkur í sumar svo þetta var mjög sætt.” 

 

„Ég tel að við höfum verið sterkari aðilinn í þessum leik. Það hefur háð okkur að við höfum ekki skorað nóg. Vonandi verður bara breyting á því og þetta er upphafið á einhvejru betra.” 

 

Ragna Lóa þjálfaði sinn fyrsta og mögulega seinasta leik í bili fyrir KR í kvöld. Bojana Becic steig til hliðar í síðustu viku og Ragna kom inn fyrir hana. 

 

„Undirbúningurinn var náttúrulega dálítið skrautlegur. Þjálfarinn okkar steig til hliðar en stelpurnar voru ákveðnar að stíga upp. Þær gerðu það í dag. Þær sýndu stórkostlega karakter og gáfust aldrei upp.” 

 

Ragna var ekki tilbúin að segja hver yrði næsti þjálfari KR en undirstrikaði það hinsvegar að hún er bráðabirgðaþjálfari eins og staðan er í dag. 

 

„Ég er svona bráðabirgðaþjálfari, það kemur nýr þjálfari inn á næstu dögum. Þá verðum við bara ennþá sterkari.” 

 

„Það er ekki orðið ljóst ennþá. Það eru einhver nöfn í sigtinu en vonandi verður það bara einhver frábær þjálfari.” 

 

Þjálfaraskipti geta stundum riðlað í skipulagi hjá liðum en það var ekki þannig hjá KR í kvöld. Ragna leitaði til fótboltasnillings til að undirbúa liðið fyrir leik kvöldsins.

 

„Undirbúningurinn hjá mér gekk ágætlega. Ég verð nú að segja það að ég var að ræða við hana Olgu Færseth, hina fótboltakonu. Hún sagði mér að hætta þessu væli og skipta bara í tvö lið. Leyfa þeim að spila og fá leikgleðina aftur. Ég held að við gerum það bara það sem eftir er sumars, spilum bara, förum í reit og höfum bara gaman.” 

 

Fylgdir þú eftir þessari nálgun sem Olga lagði til?

 

„Af sjálfsögðu, það á alltaf að hafa gaman í fótbolta. Það skilaði sér líka í leiknum.” 

 

Olga Færseth er ein besta íþróttakona sem Ísland hefur alið. Olga varð til að mynda fjórum sinnum Íslandsmeistari með KR í fótbolta. Auk þess að vera landsliðskona í fótbolta var hún landsliðskona í körfubolta. Olga spilaði 54 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 14 mörk. 

 

„Olga Fersæth lagði bara upp leikkerfið fyrir þennan leik.” 

Ragna Lóa Stefánsdóttir náði í þrjú stig í sínum fyrsta leik.vísiR/daníel þór
Kristján: Höngum í raunhæfum markmiðum

Stjarnan er ekki búin að skora í deildinni í 5 leikjum í röð núna eða síðan 22. maí. Í kvöld fengu þær einhver færi en náðu aldrei að koma boltanum yfir línuna. 

 

„Við erum ekki ánægð með það að vera ekki að skora mörk. Á meðan svoleiðis er þá vinnum við ekki.” 

 

„Mér finnst við ekki eiga nein sérstaklega opin færi en við eigum nokkur skot að markinu sem fara rétt framhjá. Við erum ekki að hitta rammann. Það er undirstöðu atriði að hitta rammann til þess að skora.” 

 

Þsð sást í tvo nýja leikmenn Stjörnunnar í stúkunni í kvöld en þær voru ekki komnar með leikheimild. Stjarnan bindur miklar vonir við að þessir leikmenn þær, Shameeka Fishley og Camille Bassett hjálpi þeim í seinni helming tímabilsins. Það má hinsvegar líka skoða hvort það þurfi að breyta leikskipulaginu eitthvað segir Kristján.

 

„Við þurfum eitthvað að skoða hvernig við röðum upp leiknum fremst á vellinum. Varnarleikurinn er alveg fínn. Reyndar fannst mér seinni hálfleikurinn okkar hérna í dag vera slakur en KR nýtti sér það.”

 

KR áttu urmul af færum í seinni hálfleik og sigurinn var að mörgu leyti sanngjarnn.

 

„Mér fannst þær eiga inni að skora. Við vorum að sleppa með þetta, við vorum komin á 90, mínútu. Þá var þetta dálítið slysalegt. Þær áttu þetta alveg inni. Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi og við nýttum okkur ekki ákveðna sénsa sem við fengum en seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður hjá okkur.” 

 

Nú er deildin hálfnuð og Stjarnan er í 5. sæti deildarinnar. Það er góður tími til að taka stöðuna á markmiðunum fyrir tímabilið en Stjarnan er nú oftar en ekki í toppbaráttunni á seinustu árum.

 

„Við höngum í raunhæfum væntingum. Deildin er svo ofboðslega jöfn fyrir utan tvö efstu sætin. Einn svona leikur getur breytt svo miklu, það eru svo fá jafntefli í deildinni.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira