Innlent

Lúsmýið mætt í Vesturbæinn: „Við erum hörð af okkur“

Eiður Þór Árnason skrifar
Bitunum fjölgaði ekki eftir því sem leið á daginn.
Bitunum fjölgaði ekki eftir því sem leið á daginn. Vísir/Vilhelm - Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og íbúi í Vesturbænum, var hvumsa þegar hún vaknaði heima hjá sér í morgun með fimm bit á lærinu. Líf sagði það strax hafa verið klárt mál að um bit frá lúsmýi væri að ræða.

Í umræðum í Facebook hópi Vesturbæjarbúa hafa fleiri fórnarlömb lúsmýsins gefið sig fram og lýsa áhyggjum sínum af ástandinu.

Í samtali við Vísi segist Líf fyrst hafa verið var við óværuna þegar að sonur hennar kvartaði undan því hafa verið bitinn um nóttina. Grunar hana að stök fluga sem hafi villst inn í heimkynni þeirra í Hagamel beri ábyrgð á verknaðinum.

Hinir tveir fjölskyldumeðlimirnir á heimilinu sluppu þó við bit. Líf sá fregnir af hrakförum Aðalheiðar Ámundadóttur fyrr í vikunni og segist hafa sloppið vel ef marka má þær myndir: „Bit mín eru hlægileg miðað við það.“

Líf tengir útbreiðslu lúsmýsins við breytingar á loftslagi og þann fjölda nýrra skordýra sem gerst hafa landnemar hér á síðustu árum. Um sé að ræða breytingar sem Íslendingar þurfi sennilega að aðlagast.

Aðspurð hvort að atvikið hafi verið mikið áfall fyrir fjölskylduna segir hún svo ekki vera: „Við erum hörð af okkur.“

Hún vorkenni öllum sem lendi í óværunni en stundum verði einfaldlega að kyngja því súra með því sæta: „Ég er ekki illa haldin. Ég lifi þetta af.“

Líf bíður spennt eftir nóttinni en vonar að bitin verði ekki fleiri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×