Innlent

Aukið fjármagn í málefni hinsegin fólks

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
getty/Estelle Ruiz
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur ákveðið að leggja þrettán milljónir króna til verkefnisins UN Free & Equal, sem er verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og skrifstofa mannréttindafulltrúa þeirra heldur utan um. Verkefnið snýst um að vinna að útbreiðslu réttinda hinsegin fólks (LGBTI+) alls staðar í heiminum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.

Ísland hefur setið í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna síðasta árið og hafa réttindi hinsegin fólks verið meðal helstu áhersluþátta Íslands þar. Ísland hefur undanfarið ár borið upp fleiri tilmæli sem snertu á málefnum hinsegin fólks en nokkurt annað ríki í allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála í fjórtán aðildarríkjum SÞ í maí síðastliðnum.

„Hinsegin sambönd teljast enn glæpur í meira en þriðjungi ríkja heims. Með fjárframlaginu og áframhaldandi áherslu á réttindi hinsegin fólks í mannréttindaráðinu og þróunarsamvinnu leggjum við okkar lóð á vogarskálar í þeirri viðleitni að breyta þessu. Við kunnum að vera ólík en öll eigum við að njóta sömu mannréttinda,“ sagði Guðlaugur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×