Innlent

Telur viðhald á skólum hafa setið of lengi á hakanum

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram fyrirspurn til skólayfirvalda í Reykjavík um hvernig bregðast eigi við heilsuspillandi ástandi í Hagaskóla. Hún telur að skólastarf þar muni raskast í haust verði ekki gripið til aðgerða í sumar.



Samkvæmt niðurstöðum mælinga verkfræðistofunnar Mannvits er meðalstyrkur koltvísýrings í lofti í öllum skólastofum Hagaskóla of hár og uppfyllir ekki núgildandi kröfur byggingareglugerðar. Þetta kemur fram í fyrirspurn til skóla- og frístundaráðs þar sem Marta Goðadóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spyr hvernig bregðast eigi við. Hún segir dæmi þess að börn hafi mætt hress í skólann á morgnana en komið slöpp heim seinni partinn, húsnæðið sé augljóslega heilsuspillandi.



„Við spurðumst fyrir hvort að það yrði farið í framkvæmdir í sumar þannig að við gætum boðið nemendum og starfsfólki upp á almennilegar aðstæður þannig að þau þurfi ekki að vera í heilsuspillandi húsnæði við sín störf,“ segir hún.



Upp á síðkastið hafa borist fregnir af fjölda skóla þar sem eru rakaskemmdir og myglusveppir. Má þá nefna Fossvogsskóla, Breiðholtsskóla, Seljaskóla og svo er Ártúnsskóli til skoðunar. Einnig bendir Marta á að nokkrar frístundamiðstöðvar hafa þurft að flytja starfsemi vegna myglu. Hún telur borgina forgangsraða rangt.



„Skólastarf er lögbundið starf og þetta er lögbundin þjónusta. Borgin á ávallt að forgangsraða í lögbundin verkefni en ekki gæluverkefni sem því miður hefur orðið raunin,“ segir hún.



Veistu til þess að það eigi að kanna einhverja fleiri skóla?



„Við höfum ekki fengið staðfestingu á því. Ég tel að við þurfum að endurbæta alla verkferla og gera áætlun á viðhaldi á skóla og húsnæði. Við höfum verið að tala um grunnskólana og frístundamiðstöðvarnar en þá eru leikskólarnir eftir og þar er ástandið víða dapurt líka,“ segir hún. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×