Innlent

Krefja ráðuneytið um gögn og útreikninga að baki „hæpnum fullyrðingum“ heilbrigðisráðherra

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Félag atvinnurekenda (FA) hefur farið fram á það á grundvelli upplýsingalaga að heilbrigðisráðuneytið afhendi félaginu öll þau gögn og útreikninga sem liggja að baki ítrekuðum fullyrðingum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um gosdrykkjaneyslu Íslendinga. Þetta kemur fram í bréfi sem sent var ráðuneytinu í gær og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Tilefnið eru áform um álgagningu sykurskatts vegna aðgerðaáætlunar Landlæknisembættisins í því skyni að draga úr neyslu sykurs. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í bréfinu að megintillagan gangi út á að leggja skatt á gosdrykki, jafnt sykraða sem ósykraða, og sælgæti. Félagið hefur lagst hart gegn þessum áformum en í umræddu bréfi eru það skrif ráðherra í Morgunblaðinu þar sem hún fullyrðir að 34 prósent af viðbættum sykri í fæði landsmanna komi úr sykruðum gos- og svaladrykkjum.

Ólafur vísar í fyrri erindi félagsins vegna hugmynda um gosskatt þar sem hæpnar fullyrðingar um meiri neyslu Íslendinga á sykruðum gosdrykkjum en nágrannaþjóða eru dregnar í efa. Embættið virðist byggja á gögnum Hagstofunnar um gosdrykkjaneyslu sem ekki sé sundurliðuð í sykraða og ósæta drykki og álykta út frá þeim um neyslu á sykruðu gosi. Gögnin séu þar að auki allavega átta ára gömul í dag.

„Félag atvinnurekenda ítrekar mikilvægi þess að afdrifaríkar ákvarðanir um íþyngjandi skattlagningu séu ekki teknar nema á grundvelli haldbærra, nýlegra gagna,“ segir Ólafur í bréfinu.




Tengdar fréttir

SI óttast óhagræði af sykurskatti

Samtök iðnaðarins mótmæla þeim tillögum Embættis landlæknis að auka skattheimtu á sykraða og ósykraða gosdrykki auk sælgætis til að draga úr sykurneyslu landsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×