Fótbolti

Belginn með burstann ætlaði ekki að móðga neinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Siamang á flugvellinum með þvottaburstann á lofti.
Siamang á flugvellinum með þvottaburstann á lofti.
Líf Belgans Corentin Siamang hefur ekki verið það sama síðan það uppgötvaðist að hann hefði verið maðurinn með þvottaburstann er tyrkneska fótboltalandsliðið kom til Íslands.

Siamang var að bíða eftir flugi heim til Belgíu er hann sá Emre Belozoglu, fyrirliða Tyrkja, hundeltan af fjölmiðlum um Leifsstöð. Hann sá sér leik á borði að hafa aðeins gaman, greip uppþvottaburstann sinn, skarst í leikinn og henti meira að segja í eina spurningu.

Tyrkir héldu í fyrstu að um íslenskan blaðamann hefði verið að ræða en svo var nú ekki. Í gær kom í ljós að Siamang væri burstamaðurinn alræmdi og hafa Tyrkir beint reiði sinni að honum í kjölfarið. Það er talsvert áreiti sem hlýst af þeirri reiði eins og íslenskir fjölmiðlamenn fengu að kynnast um síðustu helgi.

Tyrkir eru búnir að photoshoppa margar myndir af Belganum. Meðal annars þessa.
Facebook-síða Siamang var meðal annars hökkuð en áður en það var gert hafði Belginn tjáð sig.

„Þetta átti bara að vera grín og ég ætlaði ekki að móðga neinn. Þetta var bara brandari. Það eru engin lög gegn því að ég sé með uppþvottabursta,“ skrifaði Siamang en svo fór gamanið að kárna.

„Allt í einu sé ég að andlit mitt er í fjölmiðlum út um allt. Á CNN í Tyrklandi og víðar. Það verður allt brjálað. Meira að segja utanríkisráðherra Tyrklands fer að tísta um mig.“

Líflátshótunum hefur rignt yfir Siamang síðan upp komst um hann. Svo er búið að gera síður með hans nafni á Twitter og Instagram sem ganga út á að gera grín að honum. Instagram-síðan hans var einnig hökkuð.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.