Innlent

Sandur frá Langjökli skerðir loftgæði og skapar mistur í borginni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona var um að lítast yfir höfuðborgarsvæðinu á fimmta tímanum en mistrið er greinilegt.
Svona var um að lítast yfir höfuðborgarsvæðinu á fimmta tímanum en mistrið er greinilegt. Vísir/Birgir
Veðurblíða og þurrkur draga nú til sín sand frá Langjökli sem skapar slæm loftgæði í borginni en styrkur svifryks er hár í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Njörvasund og Fossaleyni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Á vef Umhverfisstofnunar sést að loftgæði mælast mjög slæm við áðurnefndar mælistöðvar. Þá flokkast loftgæði slæm við mælingarstöðvar í Húsdýragarðinum og við Brúarland í Mosfellsbæ.

Börnum og öðrum sem eru viðkvæmir í öndunarfærum er bent á að fylgjast með loftgæðum en nú er hægur vindur og hlýtt og ekki líkur á úrkomu fyrr en á mánudaginn.

Þá fylgist Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Einnig er hægt að fylgjast með loftgæðamælingum á vefsíðunni loftgæði.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×