Fótbolti

Neville: Deilum gleði þeirra og sorg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Neville ræðir við Fran Kirby eftir leikinn gegn Argentínu.
Phil Neville ræðir við Fran Kirby eftir leikinn gegn Argentínu. vísir/getty
Phil Neville, þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta, tileinkaði framherjanum Fran Kirby og markverðinum Carly Telford sigurinn á Argentínu, 1-0, á HM í Frakklandi í gær.

Móðir Kirbys lést 14. júní fyrir ellefu árum. Leikurinn í gær hafði því mikla þýðingu fyrir hana eins og sást eftir að lokaflautið gall. Telford, sem stóð á milli stanganna hjá Englandi í gær, missti einnig móður sína í fyrra. Leikurinn í gær var hennar fyrsti á stórmóti á ferlinum.

„Við erum fjölskylda,“ sagði Neville eftir leikinn í Le Havre í gær.

Hann hrósaði bæði Kirby og Telford fyrir frammistöðu þeirra gegn Argentínu.

„Við vissum að þessi dagur var mikilvægur fyrir Fran. Það fer ekkert á milli máli hversu vænt henni þótti um móður sína og hversu mikið hún saknar hennar,“ sagði Neville.

„Móðir Carlys lést í fyrra. Þetta var í fyrsta sinn sem hún spilar á stórmóti þrátt fyrir að hafa oft verið í hóp. Vonandi fylgdust mæður þeirra með og voru stoltar af þeim. Þetta var tilfinningaríkur dagur. Við deilum gleði þeirra og sorg.“

Enska liðið var miklu sterkara í leiknum í gær en þurfti að sýna þolinmæði gegn baráttuglöðu liði Argentínu. Jodie Taylor skoraði eina mark leiksins á 61. mínútu. Með sigrinum tryggði England sér sæti í 16-liða úrslitum HM.


Tengdar fréttir

Englendingar komnir áfram

Eitt mark dugði Englandi til sigurs á Argentínu í D-riðli heimsmeistaramóts kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×