Fótbolti

Tindastóll komst í 8-liða úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mjólkurbikarinn.
Mjólkurbikarinn. Vísir/E. Stefán
Tindastóll komst í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta með sigri á Augnabliki í Fífunni í Kópavogi í dag.

Liðin spila bæði í Inkassodeildinni en Augnablik byrjaði leikinn betur. Það voru þó gestirnir frá Sauðárkróki sem komu fyrsta markinu í leikinn, Vigdís Edda Friðriksdóttir gerði það á 25. mínútu.

Augnablik sótti stíft að marki Tindastóls en uppskar ekki fyrr en á 76. mínútu þegar Rebekka Ágústsdóttir jafnaði metin.

Bryndís Rut Haraldsdóttir tryggði Tindastóli hins vegar sigurinn með skallamarki á 85. mínútu leiksins. Gestirnir náðu að hanga á sigrinum og lauk leiknum 2-1, Tindastóll fer áfram í bikarnum en Augnablik er úr leik.

16-liða úrslitunum er því lokið og liðin sem verða í 8-liða úrslitunum eru auk Tindastóls; Valur, Þór/KA, ÍA, Selfoss, KR, HK/Víkingur og Fylkir.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×