Hollendingar í úrslit eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hollendingar áttu meira á tankinum í framlengingunni og fara í úrslit
Hollendingar áttu meira á tankinum í framlengingunni og fara í úrslit vísir/getty
Hollendingar mæta Portúgal í úrslitum Þjóðadeildar UEFA eftir sigur á Englendingum í framlengdum leik í undanúrslitunum.

Bæði lið fengu fín færi í leiknum en það var Marcus Rashford sem kom Englendingum yfir eftir um hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu. Matthijs de Ligt gerði mistök í varnarleiknum og braut á Rashford innan teigs, Rashford fór sjálfur á punktinn og skoraði.

De Ligt bætti hins vegar fyrir mistök sín þegar hann jafnaði leikinn fyrir Holland á 73. mínútu leiksins með skalla eftir hornspyrnu.

Undir lok seinni hálfleiks virtist Jesse Lingard hafa tryggt Englendingum sigur í leiknum en myndbandsdómarar í eyra Clement Turpin, dómara leiksins, sögðu að Lingard hafi verið rangstæður og því fékk markið ekki að standa.

Jafntefli eftir venjulegan leiktíma og farið í framlengingu. Þar voru þeir appelsínugulu mun betri. Quincy Promes skoraði þegar hann fylgdi eftir skoti Memphis Depay, skotið fór reyndar af Kyle Walker og er skráð sem sjálfsmark. Promes fékk hins vegar að eiga þriðja markið alveg sjálfur, það skoraði hann eftir að Depay komst inn í sendingu Ross Barkley.

Leikurinn fór 3-1 fyrir Hollendingum sem spila við Portúgal í úrslitaleik á sunnudaginn. England mætir Sviss í leiknum um þriðja sætið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira