Innlent

„Þú ert ógeðslegur morðingi“

Kolbeinn Tumi Daðason og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Slökkviliðsmenn vissu að fólkið væri látið og var því engin tilraun gerð til að bjarga þeim.
Slökkviliðsmenn vissu að fólkið væri látið og var því engin tilraun gerð til að bjarga þeim. Vísir/egill

Sjúkraflutningamaður sem var fyrst á vettvang í brunanum á Kirkjuvegi í október í fyrra lýsti því að húsið hafi verið alelda þegar hún kom á vettvang. Hún hafi heyrt öskur úr húsinu en útidyrahurðin hafi verið opin. Greinilegt hafi verið að Elva Marteinsdóttir var mjög reið við Vigfús Ólafsson þar sem þau stóðu fyrir utan.



Vigfús sætir ákæru fyrir að hafa orðið tveimur að bana með íkveikju. Elva er ákærð fyrir að hafa látið hjá líða að koma í veg fyrir eldsvoðann.



Lögreglumaður sem kom snemma á vettvang sagði fjölda fólks hafa byrjað að safnast saman á vettvangi. Þau hafi strax fengið tíðindi af látnu fólki í húsinu. Þeirra fyrsta hugsun hafi verið að morð hefði verið framið og kveikt í húsinu til að hylma yfir.



Töluverðar áhyggjur hafi verið af aspesti í húsinu og reynt að sjá til þess við björgunarstörf að líkin yrðu fyrir sem minnstu tjóni. Rætt hafi verið við alla nágranna á vettvangi.

Ítrekaði að hann væri morðingi í lögreglubílnum

Óskar Sigurðsson, verjandi Vigfúsar, bætti því við að bæði Vigfús og annar hinna látnu hefðu hringt á Neyðarlínuna. Ekki lægi hins vegar fyrir hver hefði svarað. Símtölin eru ekki á meðal gagna málsins.



Lögreglumaður á vettvangi lýsti sinni upplifun. Vigfús hefði staðið fyrir utan húsið ásamt Elvu. Vigfús hefði montað sig af því að hafa verið sá sem kveikti í. Þau hafi bæði verið óróleg en Vigfús ekki tekið því illa þegar Elva skammaði hann fyrir að kveikja í.



„Þú ert ógeðslegur morðingi“ hafi Elva sagt og í framhaldinu hrækt á hann.



Þá hefði Vigfús sagt í lögreglubílnum að hann væri morðingi. Þetta staðfesti lögreglukona líka fyrir dómnum.



Verjandi Vigfúsar minnti á að þau orð hefðu verið látin falla eftir að Vigfús var handtekinn.



Þá kom læknir fyrir dóminn og lýsti því að banamein hinna látnu hefði verið eitraðar lofttegundir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×