Innlent

Ekki vitað hvernig íslensk yfirvöld komu að rannsókn á Assange

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Assange var handtekinn í London í apríl.
Assange var handtekinn í London í apríl. NurPhoto/Getty

Ekki liggur fyrir með hvaða hætti íslensk yfirvöld komu að rannsókn bandarískra yfirvalda á Julian Assange, stofnanda Wikileaks-samtakanna. Dómsmálaráðuneytinu er skylt samkvæmt lögum að veita gagnkvæma alþjóðlega réttaraðstoð sé þess óskað og er ráðuneytisins þess að leggja mat á hvort skilyrði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sem og ákvæði annarra laga sem við eiga séu uppfyllt.

Engar upplýsingar hafa fengist um með hvaða hætti íslensk stjórnvöld komu að rannsókn bandarískra yfirvalda á málum Julian Assagne, stofnanda Wikileaks en sakamálarannsókn þarlendra yfirvalda lúta að gagnaleka úr bandarísku stjórnkerfi.

Ráðmenn íslenskra stjórnvalda segjast ekki hafa verið upplýstir um komu embættismanna bandaríska dómsmálaráðuneytisins og bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hingað til lands í síðustu viku þar sem þeir ræddu við Sigurð Inga Þórðarson og fengu hann til skýrslutöku vegna vitneskju sinnar um samtökin.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá embætti Ríkissaksóknara um hvort embættið hafi haft milligöngu um rannsókn bandarískra stjórnvalda og til hvaða undirstofnanna hafi verið leitað til.

Bandarísk stjórnvöld vilja Assagne framseldan en hann situr í fangelsi í Bretlandi fyrir að hafa svikist undan tryggingu. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir ekki ólíklegt að hann sjálfur verði ákærður í sakamálarannsókn bandarískra stjórnvalda og aðkomu sinnar að málum.

Dómsmálaráðuneytið birti tilkynningu á vef embættisins í gær en þar kemur fram að samkvæmt lögum sé ráðuneytið sé miðlægt stjórnvald þegar kemur að gagnkvæmri alþjóðlegri réttaraðstoð. Hlutverk ráðuneytisins í slíkum málum sé eingöngu að leggja mat á hvort skilyrði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sem og ákvæði annarra laga sem við eiga séu uppfyllt.

Telji ráðuneytið svo vera sé beiðnin framsend viðeigandi stjórnvaldi, þ.e. ríkissaksóknara, til frekari meðferðar. Ráðuneytið segist í tilkynningu sinni ekki geta tjáð sig um einstök sakamál sem eru til meðferðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.