Fótbolti

Hamrén: Stefnum á sex stig og þrjú stig er góð byrjun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hamrén var kátur í leikslok.
Hamrén var kátur í leikslok. vísir/bára
Erik Hamrén hrósaði vinnusemi íslenska liðsins eftir sigurinn mikilvæga á Albaníu í undankeppni EM 2020 í dag.

„Við þurftum nauðsynlega að vinna þennan leik. Við stefnum á að fá sex stig út úr þessum tveimur leikjum og þrjú stig í dag er góð byrjun. Ég verð að hrósa leikmönnunum,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi eftir leikinn.

Hann sagði að fyrsta markið væri gríðarlega mikilvægt í leikjum sem þessum, eins og kom á daginn.

„Fyrsta markið er svo mikilvægt. Eftir það stjórnuðum við leiknum vel. Við renndum svolítið blint í sjóinn fyrir leikinn en ég bjóst við jöfnum leik sem varð raunin,“ sagði Hamrén.

„Við urðum að vinna návígin og baráttuna og þá gátum við unnið leikinn,“ bætti sá sænski við.

Það er skammt stórra högga á milli hjá íslenska liðinu sem mætir því tyrkneska á þriðjudaginn. Tyrkir mætir heimsmeisturum Frakka í kvöld og koma svo til Íslands.

„Það verður jafn leikur en leikurinn í kvöld hefur væntanlega einhver áhrif. Ég ber virðingu fyrir bæði Albaníu og Tyrklandi,“ sagði Hamrén.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×