Fótbolti

Jóhann Berg: Það eru allir búnir að vera tala um að við séum gamlir og þreyttir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, sem skoraði sigurmarkið gegn Albaníu fyrr í dag, var himinlifandi með sigurinn og markið sem hann skoraði.

Mark Jóhanns var af dýrari gerðinni en hann segir að fyrst og fremst hafi það verið ánægjulegt að þrjú stig hafi skilað sér í hús.

„Við erum mjög ánægðir. Þrír punktar og ekkert mark fengið á okkur sem er mjög mikilvægt. Þetta var ekki fallegt en nokkuð solid, sérstaklega eftir að markið kom,“ sagði Jóhann við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok.

„Þeir voru ekki að skapa sér nein svakaleg færi og mér fannst við vera nokkuð með þetta undir control. Þegar staðan er 1-0 þá er maður alltaf stressaður en frábært að ná í þennan sigur.“

Jóhann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur og var sendur til Dyflinnar fyrr í vikunni. Hann segir að standið á honum sé bara allt í lagi. Ekkert meira en það.

„Ég var allt í lagi standi. Ég er ekki hundrað prósent. Það er smá vesen á mér og það er bara eins og það er. Maður reynir að gera sitt besta og það er ekkert annað að gera,“ en hverjar eru líkurnar á að hann spili gegn Tyrkjum á þriðjudag?

„Bara ágæta. Þessi leikur er nýbúinn og við verðum að sjá til á morgun en maður verður að vera bjartsýnn.“

Mark Jóhanns var af dýrari gerðinni og var hann beðinn um að lýsa markinu.

„Birkir fékk boltann og setti hann á mig. Ég hélt að hann væri að fara dæma aukaspyrnu en hann lét leikinn fljóta og svo ákvað ég að keyra á vörnina. Þetta opnaðist ansi vel fyrir mig og gaman að sjá hann í markinu. Þetta var mikilvægt mark að skora svona snemma og eftir það vorum við nokkuð með þetta.“

Þrjú stigin voru það mikilvægasta við leikinn sagði Jóhann og sagði umræðuna hafa gírað menn upp.

„Það eru allir búnir að vera tala um að við séum gamlir, þreyttir og það var ekki uppselt á leikinn sem er óvenjulegt hjá okkur. Við vorum staðráðnir í að vinna leikinn.“

„Við vissum það alveg að ef við myndum spila okkar leik þá eigum við að vinna þetta lið. Þó við séum búnir að fara á tvö stórmót þá erum við ekkert hættir.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×