Fótbolti

Kári: Allt í lagi að þeir séu með boltann ef þeir skapa ekkert

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kári Árnason
Kári Árnason vísir/bára
Kári Árnason var sáttur með frammistöðu íslenska landsliðsins í fótbolta eftir 1-0 sigur Íslands á Albaníu í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli í dag.

Sigurmark Íslands kom frá Jóhanni Berg Guðmundssyni í fyrri hálfleik. Albanía var aðeins meira með boltann í leiknum en lítið var um færi á báða bóga.

„Þetta er svona „ball possession“ lið og það er allt í lagi að þeir fái að halda boltanum ef þeir eru ekki að skapa neitt,“ sagði Kári eftir leikinn.

Leikmenn Albaníu fóru oft nokkuð seint inn í tæklingar og aðeins með olnbogana á undan sér.

„Þetta var skoskur dómari og hann dæmdi svolítið eins og í skosku deildinni. Þeir hefðu kannski átt að fá fleiri spjöld í fyrri hálfleik og þá hefði þetta litið öðruvísi út, þá hefðu þeir ekki verið eins aggresívir í seinni, en það skiptir ekki máli.“

Kári fékk aðhlynningu hjá sjúkraþjálfara fyrir leikinn þar sem hann var tæpur í nára, en það hafði lítil áhrif í leiknum.

„Við erum með það gott sjúkrastaff, það verður að hrósa þeim, þeir eru frábærir og tjasla mönnum saman trekk í trekk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×