Erlent

Gagnrýnir málflutning Demókrata

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, forseti Banda- 
ríkjanna.
Donald Trump, forseti Banda- ríkjanna. Nordicphotos/AFP
Það er ógeðslegt að tala um að ákæra forsetann til embættismissis og í því felst gríðarlegt áreiti. Þetta sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, við blaðamenn á lóð Hvíta hússins í gær er hann var inntur eftir viðbrögðum við tali ýmissa Demókrata í neðri deild þingsins um að gefa út slíka ákæru.

Umræðan um ákæru til embættismissis á hendur Trump hefur tekið kipp eftir að Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Rússamálinu, hélt blaðamannafund á miðvikudag. Þar greindi Mueller frá því að starfi hans væri lokið og tók fram að þótt ekki hafi tekist að sýna fram á að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar hafi ekki verið hægt að sýna fram á sakleysi hans heldur.

Þótt ýmsir Demókratar hafi lýst því yfir að þeim finnist rétt að ákæra forsetann hefur Nancy Pelosi þingforseti ekki tekið afgerandi afstöðu í málinu enn sem komið er. Hefur þó vissulega sagt að allir möguleikar séu enn opnir.

Verði Trump ákærður er hins vegar ekki ljóst að hann missi sæti sitt. Það er öldungadeildin sem dæmir í málinu og þurfa 67 þingmenn af 100 að greiða atkvæði með sakfellingu. Repúblikanar eru með 53 sæti og ólíklegt verður að teljast að nógu margir snúi baki við forsetanum að öllu óbreyttu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.