Fótbolti

Mbappé íhugar að yfirgefa PSG

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mbappé í leik með PSG.
Mbappé í leik með PSG. vísir/getty
Franska ungstirnið Kylian Mbappé liggur undir feldi þessa dagana og íhugar framtíð sína. Hún gæti legið utan Parísar þar sem hann hefur spilað síðustu ár.

Hinn tvítugi Mbappé var valinn besti leikmaður frönsku deildarinnar í gær og einnig besti ungi leikmaðurinn.

„Ég er á mjög mikilvægum stað á mínum ferli núna. Ég stend á ákveðnum krossgötum í mínu lífi. Ég hef fengið að upplifa mikið hjá PSG og kannski er kominn tími á að axla meiri ábyrgð,“ sagði Mbappé er hann tók við verðlaununum.

„Vonandi verður það kannski hjá PSG eða einhvers staðar annars staðar.“

Þarna galopnar ungstirnið hurðina fyrir því að reyna fyrir sér annars staðar og áhugasöm lið urðu pottþétt áhugasamari. Ummælin vöktu mikla athygli og strákurinn stendur við þau.

„Ég sagði það sem ég þurfti að segja. Ég vildi senda út skilaboð og gerði það. Ég mun ekki tjá mig meira,“ sagði hann.

Real Madrid hefur verið þráfaldlega orðað við leikmanninn og við eigum örugglega eftir að lesa margar fréttir um Mbappé og Real næstu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×