Innlent

Magnús Geir hrökk í kút þegar Hatarar veifuðu palestínsku borðunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hatari sést hér mæta á sviðið í Expo-höllinni á laugardagskvöld.
Hatari sést hér mæta á sviðið í Expo-höllinni á laugardagskvöld. vísir/getty
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, viðurkennir að hann hafi hrokkið svolítið í kút þegar hann sá liðsmenn Hatara veifa palestínsku borðunum í stigagjöfinni á laugardagskvöldið. Hann er engu að síður mjög sáttur við framlag Íslands og segir Hatara stórkostlegan gjörningahóp.

Þetta kemur fram í viðtali við Magnús Geir á vef RÚV en það var tekið á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi eftir komu Hatara til landsins frá Ísrael.

Töluvert hefur verið rætt um mögulegar refsiaðgerðir Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, gegn RÚV vegna uppátækis Hatara með palestínsku flöggin en Magnús Geir kvaðst vera tiltölulega rólegur gagnvart því öllu ennþá.

„Við skulum bara bíða og sjá hvað verður. Það hefur nú eitt og annað gerst í þessari keppni á þeim áratugum sem hún hefur verið haldin. Ýmsum fánum verið veifað þannig að við skulum bíða og sjá,“ sagði útvarpsstjóri.

Magnús Geir Þórðarson er útvarpsstjóri.fréttablaðið/ernir

Ferðalagið heilmikill listviðburður

Eins og þorri landsmanna fylgdist Magnús Geir með keppninni í sjónvarpi og sá þegar Hatarar veifuðu palestínsku borðunum í beinni útsendingu. Hann viðurkenndi að honum hafi brugðið.

„Ég hrökk auðvitað svolítið í kút. Mér brá af því að ég var nú nokkuð vel inn í því sem var að gerast og í góðu sambandi við okkar fólk á staðnum og vissi ekki af þessu auðvitað. Þannig að ég neita því ekki að ég hrökk svolítið í kút.“

Útvarpsstjóri er samt sem áður ánægður með framlag Íslands.

„Ég er mjög sáttur við framlag Íslands og mér finnst Hatarar stórkostlega hljómsveit eða gjörningahópur og mér finnst þetta ferðalag hafa verið heilmikill listviðburður sem við getum verið stolt af,“ sagði Magnús Geir.

Þeir Klemens og Matthías eru þakklátir og stoltir.vísir/getty

Þakklæti efst í huga Hatara

RÚV ræddi einnig við þá Matthías Tryggva Haraldsson og Klemens Nikulásson Hannigan við komuna til Keflavíkur í gærkvöldi. Þeim er þakklæti efst í huga.

„Við erum bara ennþá í spennufalli og að melta þetta allt saman en þakklæti er efst í huga og þakklæti fyrir allan stuðninginn og baráttukveðjurnar og gleðina yfir þessu,“ sagði Matthías.

Klemens tók undir þessi orð frænda síns.

„Já, þakklátir fyrir að hafa getað komið þessu eins langt og við gátum og koma þessu málefni á dagskrá eins og okkur fannst best vera.“

Myndin sem birtist á skjánum þegar stig Íslands í keppninni voru tilkynnt þar sem Hatarar veifuðu palestínskum borðum. Fátt vakti meiri athygli í kringum Eurovision í ár en þetta uppátæki hljómsveitarinnar.

„Við fylgdum okkar hjarta“

Aðspurðir hvort það hafi verið planið að komast í 10. sæti og hvort þeir hefðu verið ánægðir með árangurinn sagði Matthías allt hafa verið samkvæmt áætlun.

„Mesta dagskrárvaldið hefði verið ef við hefðum unnið keppnina. En við erum mjög sáttir og stoltir af því hvað við gerðum og hvernig við gerðum það,“ sagði Klemens.

Liðsmenn Hatara hafa verið töluvert gagnrýndir fyrir það að veifa palestínsku borðunum í stigagjöfinni. Hefur sú gagnrýni bæði komið frá Ísraelsmönnum og þeim sem styðja þeirra málstað sem og frá Palestínumönnum og fólki og samtökum sem berjast fyrir réttindum þeirra.

Matthías sagði þessa gagnrýni mjög skiljanlega.

„Auðvitað er það rétt að öðruvísi aðgerðir hefðu skilað öðruvísi niðurstöðu. Við fylgdum okkar hjarta og teljum okkur hafa gert það sem okkur bar með okkar hætti. Það sem okkur finnst skipta máli núna er að skapa breiða samstöðu um það sem við erum þó sammála um sem er mannréttindabarátta Palestínu. Ef við getum vakið athygli á henni, nýtt þetta umtal til að skapa breiða samstöðu, það væri málstaðnum til framdráttar. Við munum áfram tala fyrir því.“


Tengdar fréttir

Engar athugasemdir komið frá Ísrael

Utanríkisráðuneytinu hafa ekki borist nein viðbrögð frá ísraelskum stjórnvöldum, enn sem komið er, vegna uppátækis íslensku þátttakendanna í lok Eurovision keppninnar síðastliðinn laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×