Erlent

Æ fleiri demókratar hoppa á ákæruvagninn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar beið eftir Donald McGahn í dag. Hann mætti ekki á fund nefndarinnar.
Dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar beið eftir Donald McGahn í dag. Hann mætti ekki á fund nefndarinnar. Vísir/Getty

Hópur fulltrúadeildarþingmanna demókrata hefur kallað eftir því að fá að kjósa um hvort hefja eigi ferlið til að ákæra Donald Trump forseta fyrir embættisbrot. Leiðtogar demókrata hafa hingað til staðist þrýsting samflokksmanna sinna og lagt áherslu á þær fjölmörgu rannsóknir sem þingnefndir fulltrúadeildarinnar vinna nú að.

Þrýstingurinn hefur aukist eftir því sem meiri harka hefur færst í samskipti Hvíta hússins og fulltrúadeildarinnar, sem er undir stjórn demókrata.

Trump og ríkisstjórn hans hafa tekið þá stefnu að hunsa allar tilraunir demókrata á Bandaríkjaþingi til að veita forsetanum aðhald með því að krefjast gagna. Auk þess að stefna til að koma í veg fyrir að fjárhagsupplýsingar hans verði birtar hefur Trump bannað embættismönnum sínum að bera vitni fyrir þingnefndum og fjármálaráðherranum að afhenda skattskýrslur hans.

Alexandria Ocasio-Cortez er meðal þeirra sem vill fá að greiða atkvæði um það hvort hefja eigi ákæruferlið gegn Donald Trump fyrir embættisbrot. Vísir/EPA

Ósátt við hörkuna í Trump

Þannig hundsaði Donald McGahn, fyrrverandi lögfræðiráðgjafi Trump í Hvíta húsinu, stefnu dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar og mætti ekki til að svara spurningum nefndarinnar um framburð hans í Mueller-skýrslunni í dag. Forsetinn hafði áður skipað McGahn að mæta ekki.

Nafn hans kemur ítrekað fyrir í Mueller-skýrslunni sem Robert Mueller skilaði inn og fjallar um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og hvort forsetaframboð Trump hafi komið þar nálægt.

Í skýrslunni segir að McGahn hafi sagt að Trump hafi ítrekað hringt í hann í júní árið 2017 til þess að segja honum að skipa dómsmálaráðuneytingu til að reka Mueller. McGahn varð ekki við þessari beiðni. Þá segir einnig í skýrslunni að Trump hafi skipað McGahn að draga fréttir af skipunum Trump í efa. Telja ýmsir demókratar að í framburði McGahn leynist sterkar vísbendingar um að Trump hafi reynt að hamla framgangi réttvísinnar og vilja þeir þess vegna spyrja McGahn nánar út í framburð hans.

Frjálslyndir demókratar vilja kjósa um ákæruferlið

Demókratar á þingi eru því ekki sáttir við að McGahn hafi ekki mætt og þá hörku sem Trump hefur sýnt viðleitni þingmanna til þess að kafa dýpra í Meuller-skýrsluna. Hefur hópur þeirra krafist þess að fá að kjósa um hvort hefja eigi ákæruferlið yfir Trump.

„Við þurfum að vinna vinnuna okkar og hefja ákæruferlið,“ Alexandria Ocasio-Cortez á Twitter fyrr í dag.
Kollegi hennar á þingi og félagi í hópi frjálslyndari þingmanna demókrata tók undir orð hennar.

„Hann hefur komið okkur á þann stað að við verðum að hefja ákæruferlið,“ sagði þingmaðurinn Mark Pocan.

Pelosi boðar til fundar á morgun

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi demókrata, hefur hingað til stigið varlega til jarðar þegar kemur að því að ákæra forsetann. Í mars sagði hún að það væri ekki þess virði að hefja ákæruferlið þar sem það myndi sundra bandarísku þjóðinni rétt fyrir kosningar sem haldnar verða á næsta ári.

Hefur hún boðað þingmenn á fund á morgun þar sem málið verður rætt frekar. Stjórnmálaskýrandi CNN telur ljóst að þolinmæði margra þingmanna í garð Pelosi sé að þrjóta og æ fleiri háttsettir þingmenn séu að komast á þá skoðun að rétt sé að halda atkvæðagreiðslu um það hvort hefja eigi ákæruferlið.


Tengdar fréttir

Verða að afhenda fjárhagsupplýsingar um Trump

Dómari í Bandaríkjunum hefur skipað endurskoðunarfyrirtækinu Mazars að afhenda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings skýrslur og upplýsingar um fjárhag Donald Trump, forseta bandaríkjanna, frá því áður en hann tók við embætti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.