Innlent

Stærsta timburhús landsins verður við Malarhöfða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona er reiknað með að byggingin muni líta út.
Svona er reiknað með að byggingin muni líta út. Mynd/GAMMA
Gert er ráð fyrir að stærsta timburhús landsins munu rísa við Malarhöfða eftir að verkefnið Lifandi landslag var á meðal þeirra sem bar sigur úr bítum í samkeppni C40 um umhverfisvæna byggingu og vistvænt skipulag á reit á Malarhöfða hjá Elliðaárvogi.

Vinningstillögur í samkeppninni voru kynntar á ráðstefnu í Noregi í dag en keppnin hófst í desember 2017 þar sem þverfagleg teymi fengu tækifæri til að breyta vannýttum svæðum borgarinnar í sjálfbær svæði með aukin umhverfisgæði og minna kolefnisfótspor.

Að verkefninu Lifandi landslag koma GAMMA ásamt samstarfsaðilum Klasa og Arnarhvoli og hönnunarteymi Jakob+Macfarlane, Tark, Landslag og Eflu.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að Lifandi landslag verði stærsta timburbygging landsins. Á vef GAMMA segir að byggingin verði gerð með það að leiðarljósi að vera kolefnishlutlaus og munu íbúðir hússins hýsa fjölbreyttan hóp fólks, fjölskyldur, námsmenn og eldri borgara.

Auk þess verði veitingastaðir, verslanir og leikskóli í byggingunni. Þá sé staðsetning góð þegar horft er á aðgengi að almenningssamgöngum en í núverandi skipulagi verður þar biðstöð fyrir Borgarlínu.

Fyrirhuguð staðsetning er merkt með hvítum hring.

Tengdar fréttir

Vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í Vogabyggð

Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í nýju hverfi í Vogabyggð og spáir að það verði það mikill gleðigjafi. Hún segir að oft skapist mikil umræða og jafnvel gagnrýni um útilistaverk en umræðan um þetta verk í vetur hafi verið sérlega harkaleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×