Innlent

Reyndi að bíta lögreglumann í fótinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregla hefur í mörg horn að líta.
Lögregla hefur í mörg horn að líta. Vísir/Vilhelm
Ungur maður í annarlegu ástandi sem var handtekinn fyrir að valda ónæði í Vesturbæ Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt reyndi að bíta lögreglumann í fótinn. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar málsins í nótt.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Í Garðabæ var tilkynnt um ágreining sambúðarfólks klukkan rúmlega ellefu í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á vettvang réðst konan á lögreglumann og sló hann. Hún var handtekin og látin gista fangageymslu lögreglunnar.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um erlendan mann sem hafði komið sér fyrir í kjallara íbúðarhúss í Kópavogi. Þar var hann handtekinn, grunaður um húsbrot og fleiri brot.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna ölvunar- eða fíkniefnaaksturs. Þar á meðal var ökumaður sem átti þátt í umferðaróhappi í Mosfellsbæ klukkan 17:20 í gær. Hann er grunaður um ölvun við akstur. Bifreiðin reyndist auk þess ótryggð og voru skráningarnúmer hennar klippt af. Engin meiðsli voru skráð í óhappinu.

Annar ökumaður auk út af Suðurlandsvegi í Árbæ klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, vörslu fíkniefna, brot á lyfjalögum og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×