Fótbolti

Átján mánaða atvinnuleysi á enda hjá Villas-Boas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Felipe Scolari og Andre Villas-Boas hafa báðir farið víða á stjóraferlinum. Hér heilsast þeir sem þjálfarar tveggja kínverskra félaga.
Luiz Felipe Scolari og Andre Villas-Boas hafa báðir farið víða á stjóraferlinum. Hér heilsast þeir sem þjálfarar tveggja kínverskra félaga. Getty/Yifan Ding
Andre Villas-Boas er ekki lengur atvinnulaus því Portúgalinn var í dag ráðinn sem knattspyrnustjóri franska efstu deildar félagsins Olympique de Marseille.

Villas-Boas hefur verið atvinnulaus frá því að hann hætti hjá kínverska félaginu Shanghai SIPG í nóvember 2017. Villas-Boas tekur við starfi Rudi Garcia sem hætti með Marseille fyrir tæpri viku síðan.

Rudi Garcia var búinn að stýra Marseille frá 2016. Liðið endaði í fimmta sæti í frönsku deildinni á nýloknu tímabili en hefur ekki unnið stóran titil í Frakklandi síðan liðið vann frönsku deildina vorið 2010. Liðið vann reyndar franska deildabikarinn þrjú ár í röð frá 2010 til 2012.





Andre Villas-Boas er enn bara 41 árs gamall þrátt fyrir að hann hafi farið mjög víða á sínum stjóraferli. Hann stýrði fyrst liðum Académica og Porto í Portúgal en færði sig svo yfir til Englands.

Villas-Boas var eitt tímabil hjá Chelsea (2011-12) og eitt og hálft tímabil hjá Tottenham (2012-13). Hann var rekinn frá báðum félögunum.

Villas-Boas tók við liði Zenit Saint Petersburg í mars 2014 og undir hans stjórn varð liðið bæði rússneskur meistari (2015) og rússneskur bikarmeistari (2016).

Villas-Boas tók síðan við kínverska félaginu Shanghai SIPG af Sven-Göran Eriksson en entist bara í rúmt ár. Hann var síðan atvinnulaus í átján mánuði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×