Innlent

Stefnt að því að nýi Herjólfur hefji siglingar milli lands og Eyja eftir mánuð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nýi Herjólfur í Póllandi en hann leggur af stað til Eyja þann 9. júní.
Nýi Herjólfur í Póllandi en hann leggur af stað til Eyja þann 9. júní. Vegagerðin
Stefnt er að því að nýi Herjólfur komi til Vestmannaeyja frá Póllandi þann 15. júní næstkomandi og að hann hefji siglingar á milli lands og eyja fyrir mánaðamótin júní/júlí.

Þetta segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, en samningar tókust í vikunni á milli Vegagerðarinnar og pólsku skipasmíðastöðvarinnar um afhendingu skipsins.

„Við erum að koma áhöfn út núna um helgina og það mun taka okkur einhverja daga í Póllandi að gera skipið sjóklárt til heimsiglingar. Við gerum ráð fyrir því að vera búin að ljúka því um aðra helgi og stefnum að því sigla skipinu heim frá Póllandi 9. júní,“ segir Guðbjartur.

Siglingin frá Póllandi til Vestmannaeyja mun taka um fimm til sex sólarhringa en að öllum líkindum þarf að stoppa til að taka olíu í Færeyjum.

„Svo við erum með áætlun um að sigla inn til Vestmannaeyja 15. júní. Við erum að reyna að vinna okkur í gegnum það að stytta þann tíma sem það tekur að setja skipið í rekstur. Skipið er fullbúið og það er ekkert óvænt sem við eigum von á við að fá það afhent. En það mun taka okkur 10 til 15 daga að koma því í rekstur þannig að við erum að stefna að því að vera komin með það í rekstur fyrir mánaðamótin júní/júlí,“ segir Guðbjartur.

Hann segir tímabundinn samning í gildi á milli rekstrarfélags Herjólfs og Vegagerðarinnar um að eldri Herjólfur verði áfram til taks í Eyjum. Er það ekki síst vegna þess að enn á eftir að reyna nýja skipið á siglingaleiðinni milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×