Innlent

Áslaug Arna segir Sigmund snúa út úr

ÓKP skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, brást illa við ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem hann hafði uppi í gær, en hann gaf í skyn í fjölmiðlum að fundi utanríkismálanefndar um þriðja orkupakkann á fimmtudag hefði verið haldið leyndum fyrir sér. Enginn fulltrúi Miðflokksins mætti á fundinn, en Gunnar Bragi Sveinsson á fast sæti í nefndinni og Sigmundur er varamaður hans.

„Þetta er rangt hjá Sigmundi og útúrsnúningur í besta falli. Mér fannst rétt að halda því til haga að þessum fundi voru gerð sömu skil og öðrum fundum. Dagskránni var ekki haldið leyndri fyrir neinum nefndarmanni,“ segir Áslaug, sem einnig tók til varna á Facebook-síðu sinni í gær. Þar skýrði hún frá því hvernig fundurinn hefði verið boðaður. Það var gert með SMS-skilaboðum og tölvupósti klukkan rúmlega fjögur daginn fyrir fundinn. Áslaug segir ekkert óeðlilegt við þá fundarboðun eða fyrirvara.

Aðspurð segist Áslaug engar skýringar hafa fengið á fjarveru Miðflokksmanna á fundinum. „Nei, ég hef engar skýringar fengið á því. Og mér þótti þetta bara afar sérstakt í ljósi allra þeirra gesta sem voru í gær og þeirra fjölbreyttu sjónarmiða sem komu fram. Dagskrá vikunnar um að það væri utanríkismálafundur klukkan eitt á fimmtudag lá fyrir strax á mánudag þannig að það er afar hæpið að halda því fram að þessi fundar­tími hafi komið á óvart,“ segir Áslaug.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.