Innlent

Far­þegum fækkaði um fjórðung fyrsta mánuðinn án WOW air

Kjartan Kjartansson skrifar
Skiptifarþegum fækkað sérstaklega mikið í Keflavík eftir fall Wow air.
Skiptifarþegum fækkað sérstaklega mikið í Keflavík eftir fall Wow air. Fréttablaðið/Anton Brink
Rúmlega fjórðungsfækkun var á farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Það var fyrsti mánuðurinn eftir gjaldþrot WOW air í lok mars. Skiptifarþegum sem fóru um flugvöllinn fækkaði um helming á milli ára, samkvæmt tölum Isavia.

Alls fóru 474.519 farþegar um Keflavíkurflugvöll í apríl. Það var 27% fækkun frá því í apríl í fyrra þegar 649.973 fóru um völlinn. Rúm 2,1 milljón farþega hefur farið um flugvöllinn á fyrstu fjórum mánuðum ársins, rúmlega 300.000 færri en á sama tímabili í fyrra.

Stærsti hluti fækkunarinnar er vegna samdráttar í skiptifarþegum á milli ára. Þannig voru skiptifarþegar sem fóru um Keflavíkurflugvöll rúmlega 253 þúsund í apríl í fyrra en rúmlega 119 þúsund í ár. Það er fækkun um 52% á milli ára. Á sama tíma fækkaði komu- og brottfararfarþegum um 10,4%.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, skýrist fækkunin helst af þeirri staðreynd að stór hluti af farþegum Wow air hafi verið skiptifarþegar. Í farþegaspá Isavia fyrir þetta ár sem var gefin út fyrir fall WOW air hafi þegar verið gert ráð fyrir fækkun skiptifarþega miðað við árið 2018. Það hafi verið vegna fækkunar áfangastaða og flugvéla WOW air.

Í talningu Ferðamálastofu og Isavia fyrir apríl, sem nær ekki til flestra skiptifarþega, sem birt var í síðustu viku kom fram að brottförum erlendra farþega frá landinu fækkaði um 18,5% á milli ára. Erlendum farþegum hafi fækkað um 7,9% á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Ferðum Íslendinga um völlinn fjölgaði engu að síður um 15,4% í apríl samkvæmt þeim tölum. Frá áramótum hefur brottförum Íslendinga þó fækkað um 1,8%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×