Erlent

Fann foreldra sína 33 árum eftir að hafa verið skilinn eftir á flugstöð

Birgir Olgeirsson skrifar
Lífsýnarannsókn hefur leitt í ljós að móðir hans er látin en faðir hans er enn á lífi.
Lífsýnarannsókn hefur leitt í ljós að móðir hans er látin en faðir hans er enn á lífi. Vísir/EPA
Maður sem var skilinn eftir sem barn á Gatwick-flugvellinum í Bretlandi fyrir rúmlega þremur áratugum hefur fundið foreldra sína.

Maðurinn heitir Steve Hydes en hann var skilinn eftir 10 daga gamall árið 1986 og fannst vafinn inn í teppi á kvennaklósetti flugstöðvarinnar.

Hydes hefur varið 15 árum í að finna foreldra sína. Lífsýnarannsókn hefur leitt í ljós að móðir hans er látin en faðir hans er enn á lífi.

Eftir að hafa sett sig í samband við föður sinn komst Hydes að því að hann ætti systkini.

Undanfarin ár hefur hann verið duglegur við að koma sér í blöðin til að vekja athygli á leit sinni að foreldrum sínum.

Hann segist ekki reiður út í foreldra sína. Hann vildi finna fjölskyldu sína svo hann gæti lært meira um hana og frætt börnin sín.

Hann var settur í fóstur áður en hann var ættleiddur af fjölskyldu þar sem hann ólst upp með þremur systrum.

Bakslag kom á leitina þegar hann komst að því að lögreglan hafði eytt gögnum sem tengdust máli hans, þar á meðal lýsing á símtali sem lögreglumaður átti við unga konu sem sagðist vera móðir hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×