Lampard fer með Hrútana á Wembley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Derby fer á Wembley
Derby fer á Wembley vísir/getty

Derby County mætir Aston Villa í úrslitum um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir sigur á Leeds United í hreint ótrúlegum fótboltaleik í undanúrslitum umspilsins

Leeds var búið að vera í toppbaráttu í ensku Championshipdeildinni í allan vetur en Derby rétt slapp inn í umspilið með sigri í lokaumferðinni.

Það skipti þó litlu máli þegar í einvígið var komið. Leeds vann 1-0 útisigur á Derby í fyrri leik liðanna í umspilinu og var í betri stöðu inn í seinni leikinn á heimavelli Leeds í kvöld.

Heimamenn bættu stöðu sína með marki frá Stuart Dallas eftir 24 mínútna leik í Leeds og voru svo óheppnir að hafa ekki bætt öðru við á 30. mínútu þegar Mateusz Klich á skot sem endaði í slánni.

Gestirnir sóttu meira undir lok hálfleiksins og uppskáru með marki frá Jack Marriott rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Mason Mount skoraði svo annað mark Derby strax í upphafi seinni hálfleiks og allt í einu var staðan orðin jöfn í einvíginu.

Mörkin tvö komu úr einu tveimur skotum Derby til þessa í leiknum sem enduðu á markrammanum.

Eftir um klukkutíma leik fékk Derby vítaspyrnu. Liam Cooper togaði í treyjuna hjá Mason Bennet og Anthony Taylor dæmdi vítaspyrnu. Harry Wilson fór á punktinn og skoraði. Það tók Leeds hins vegar aðeins fjórar mínútur að skora sitt annað mark í leiknum og aftur var einvigið orðið jafnt.

Á 78. mínútu fékk Gaetano Beradi sitt annað gula spjald og þurfti því að fara snemma í sturtu. Derby manni færri síðustu mínúturnar. Þeir nýttu sér það og Marriott skoraði sitt annað mark á 85. mínútu. Staðan í leiknum orðin 4-2 fyrir Derby.

Leeds fékk færi til þess að jafna einvígið á nýjan leik undir lokin en Kelle Roos varði tvisvar vel í marki Derby. Tíminn var hins vegar of naumur fyrir Leeds, þeir náðu ekki marki til þess að knýja fram framlengingu og Derby vann einvígið samtals 4-3.

Derby mun því mæta Aston Villa á Wembley í lok mánaðarins þar sem sæti í ensku úrvalsdeildinni er í húfi.

Í uppbótartíma leiksins fékk Scott Malone sitt annað gula spjald og því aftur orðið jafnt með liðunum, bæði með tíu menn.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.