Lampard fer með Hrútana á Wembley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Derby fer á Wembley
Derby fer á Wembley vísir/getty
Derby County mætir Aston Villa í úrslitum um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir sigur á Leeds United í hreint ótrúlegum fótboltaleik í undanúrslitum umspilsins

Leeds var búið að vera í toppbaráttu í ensku Championshipdeildinni í allan vetur en Derby rétt slapp inn í umspilið með sigri í lokaumferðinni.

Það skipti þó litlu máli þegar í einvígið var komið. Leeds vann 1-0 útisigur á Derby í fyrri leik liðanna í umspilinu og var í betri stöðu inn í seinni leikinn á heimavelli Leeds í kvöld.

Heimamenn bættu stöðu sína með marki frá Stuart Dallas eftir 24 mínútna leik í Leeds og voru svo óheppnir að hafa ekki bætt öðru við á 30. mínútu þegar Mateusz Klich á skot sem endaði í slánni.

Gestirnir sóttu meira undir lok hálfleiksins og uppskáru með marki frá Jack Marriott rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Mason Mount skoraði svo annað mark Derby strax í upphafi seinni hálfleiks og allt í einu var staðan orðin jöfn í einvíginu.

Mörkin tvö komu úr einu tveimur skotum Derby til þessa í leiknum sem enduðu á markrammanum.

Eftir um klukkutíma leik fékk Derby vítaspyrnu. Liam Cooper togaði í treyjuna hjá Mason Bennet og Anthony Taylor dæmdi vítaspyrnu. Harry Wilson fór á punktinn og skoraði. Það tók Leeds hins vegar aðeins fjórar mínútur að skora sitt annað mark í leiknum og aftur var einvigið orðið jafnt.

Á 78. mínútu fékk Gaetano Beradi sitt annað gula spjald og þurfti því að fara snemma í sturtu. Derby manni færri síðustu mínúturnar. Þeir nýttu sér það og Marriott skoraði sitt annað mark á 85. mínútu. Staðan í leiknum orðin 4-2 fyrir Derby.

Leeds fékk færi til þess að jafna einvígið á nýjan leik undir lokin en Kelle Roos varði tvisvar vel í marki Derby. Tíminn var hins vegar of naumur fyrir Leeds, þeir náðu ekki marki til þess að knýja fram framlengingu og Derby vann einvígið samtals 4-3.

Derby mun því mæta Aston Villa á Wembley í lok mánaðarins þar sem sæti í ensku úrvalsdeildinni er í húfi.

Í uppbótartíma leiksins fékk Scott Malone sitt annað gula spjald og því aftur orðið jafnt með liðunum, bæði með tíu menn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira