Fótbolti

Hvetur Real Madrid til að byrja með kvennalið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kvennalið Barcelona er í mikilli sókn.
Kvennalið Barcelona er í mikilli sókn. vísir/getty
Varaforseti Barcelona, Jordi Mestre, hvetur Real Madrid til að setja kvennalið á laggirnar. Hann segir að það myndi styrkja spænska kvennaboltann, auka samkeppnina og áhugann á honum.

Barcelona hefur byggt upp sterkt kvennalið á undanförnum árum. Barcelona endaði í 2. sæti spænsku úrvasldeildarinnar á nýafstöðnu tímabili og mætir Lyon í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í dag. Vinni Barcelona verður það fyrsta félagið til að vinna Meistaradeildina í karla- og kvennaflokki.

„Það er augljóst að deildin getur styrkst og það er í vinnslu. Æ fleiri leikir eru sýndir í beinni útsendingu og áhuginn er að aukast,“ sagði Mestre.

„Mörg félög hafa byggt upp sterk kvennalið, eins og Atlético Madrid, Athletic Bilbao og Real Sociedad en það er synd að Real Madrid sé ekki með kvennalið.“

Leikir Barcelona og Real Madrid, El Clásico, eru risastórir og fá jafnan mikla athygli. Mestre segir að það geti líka gerst í kvennaflokki.

„Það myndi auka samkeppnina og vekja athygli á kvennaboltanum. En hvert félag er með sínar áherslur og líklega finnst Real Madrid það ekki vera nógu áhugavert að vera með kvennalið,“ sagði Mestre.


Tengdar fréttir

Lyon mun líklegra til þess að vinna Meistaradeild Evrópu

Barcelona freistar þess í dag að bera sigur úr býtum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna í fyrsta skipti í sögu félagsins. Mótherji spænska liðsins í úrslitaleik keppninnar er hins vegar franska stórveldið Lyon sem þykir mun sigurstranglegra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×