Lífið

Þúsundir krefjast þess að Ísland verði rekið úr Eurovision

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íslenski hópurinn bíður eftir stigagjöfinni í Eurovision-höllinni í gærkvöldi. Þarna höfðu fánar Palestínu ekki litið dagsins ljós.
Íslenski hópurinn bíður eftir stigagjöfinni í Eurovision-höllinni í gærkvöldi. Þarna höfðu fánar Palestínu ekki litið dagsins ljós. Getty/Guy Prives
Yfir átta þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftarsöfnun á vefsíðunni Change.org þar sem þess er krafist að Íslandi verði vikið úr Eurovision eftir að Hatari strengdi á milli sín fána Palestínu í beinni útsendingu á lokakvöldi keppninnar í Tel Aviv í gær.

Undirskriftasöfnuninni var hleypt af stokkunum í gær og safnast undirskriftirnar afar hratt. Gera má ráð fyrir að markmiðið, 10 þúsund undirskriftir, náist áður en dagurinn er úti - og gott betur - en þegar þetta er ritað eru þær orðnar 8489.

Á síðu söfnunarinnar eru liðsmenn Hatara harðlega gagnrýndir fyrir gjörning sinn í gærkvöldi.

„Eftir dásamlegt kvöld sem snerist um að grafa stríðsöxina og sameinast í tónlist, sýndu fulltrúar Ísland af sér gríðarlegt virðingarleysi í garð andrúmsloftsins og gestgjafanna með því að halda uppi fána Palestínu í beinni útsendingu. Eftir svo hryllilega yfirlýsingu fyrirlitningar gagnvart Ísrael krefjumst við undirrituð þess að Íslandi verði meinað að keppa í Eurovision á næsta ári.“

Gjörningur Hatara hefur vakið mikla athygli, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Þá er stuðningsyfirlýsing sveitarinnar við Palestínu jafnframt umdeild en henni hefur ýmist verið fagnað eða hún fordæmd, og þá úr herbúðum beggja deiluaðila.

Talið er ljóst að einhver viðurlög verði við gjörningnum. Felix Bergsson fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri gera þó ekki ráð fyrir að Íslandi verði vikið úr keppni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×