Fótbolti

Atalanta tók stig í Tórínó

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Baráttan um Meistaradeildarsætin er svakaleg
Baráttan um Meistaradeildarsætin er svakaleg vísir/getty
Inter missti af mikilvægum stigum í Evrópubaráttunni með tapi fyrir Napólí, Atalanta náði í sterkt stig gegn Juventus.

Þrátt fyrir að Juventus hafi unnið Seria A mjög örugglega og Napólí er þægilega í öðru sæti þá er gríðarleg keppni um síðustu tvö Meistaradeildarsætin.

Atalanta og Inter eru þar bæði í baráttunni og eru jöfn að stigum eftir úrslit kvöldsins.

Josip Ilicic kom Atalanta yfir gegn Juventus í Tórínó á 33. mínútu en á 80. mínútu jafnaði Mario Mandzukic og tryggði Juventus stig í leiknum. Lokatölur 1-1.

Í Napólí kom Piotr Zielinski heimamönnum yfir strax á 16. mínútu. Á sautján mínútna kafla í seinni hálfleik komu þrjú mörk frá heimamönnum og vonir Inter um stig úr leiknum orðnar litlar sem engar.

Mauro Icardi gerði sárabótamark undir lokin úr vítaspyrnu, staðan 4-1 í leikslok.

Atalanta og Inter eru bæði með 66 stig, Atalanta í þriðja sætinu á innbyrðisviðureignum gegn Inter. AC Milan er í fimmta sæti með 65 stig og Roma með 63 í sjötta sæti þegar ein umferð er eftir í ítölsku deildinni. Efstu fjögur sætin gefa sæti í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×