Fótbolti

Messi komst upp með að færa boltann á mun betri stað í aukaspyrnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki í gær.
Lionel Messi fagnar marki í gær. Getty/Matthias Hangst
Lionel Messi skoraði magnað mark í Meistaradeildinni í gærkvöldi þegar hann innsiglaði 3-0 sigur Barcelona á Liverpool í fyrri undanúrslitaleik liðanna.

Markið skoraði Messi með frábærri aukaspyrnu af 32 metra færi og argentínski snillingurinn sýndi þar enn á ný hversu stórbrotinn knattspyrnumaður hann er. Hann hafði skömmu áður komið Barcelona í 2-0 og með þessum tveimur mörkum á lokakafla leiksins tryggði hann nánast Barcelona sæti í úrslitaleiknum.

Messi hafði einnig fiskað aukaspyrnuna sjálfur en ástralski blaðamaðurinn Adam Peacock benti á að aukaspyrnan var tekin á kolröngum stað.





Messi fékk aukaspyrnuna eftir að Fabinho hljóp fyrir hann og eins og sjá má á myndunum hér fyrir ofan þá var brotið mun lengra frá markinu en þar sem Lionel Messi tók á endanum spyrnuna.

Messi færði boltann ekki aðeins nær markinu heldur einnig meira fyrir miðju.

Messi nýtti sér það að leikmenn umkringdu hollenska dómarann Bjorn Kuipers eftir brotið. Luis Suarez fékk meðal annars gult spjald fyrir mótmæli.

Messi er frábær spyrnumaður og hefur skorað ófá glæsimörkin beint úr aukaspyrnu. Það breytir samt ekki því að hann auðveldaði sér verkefnið talsvert með því að færa boltann.

Spyrnan var síðan fullkomin og óverjandi fyrir Alisson í marki Liverpool. Hér fyrir neðan má sjá mörk Barcelona í leiknum.



Klippa: Barcelona - Liverpool 3-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×