Innlent

Telur þungunarrofsfrumvarp óverjandi og siðferðislega rangt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Flokkur fólksins leggst gegn hugtakanotkuninni þungunarrof.
Flokkur fólksins leggst gegn hugtakanotkuninni þungunarrof. Vísir/Vilhelm

Flokkur fólksins telur þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra, sem heimilar þungunarrof fram að lokum 22. viku þungunar óháð því hvaða ástæður liggja að baki vilja kvenna, vera óverjandi, siðferðilega rangt og „ganga gegn lífsrétti ófæddra barna“.

Þetta kemur fram í nefndaráliti Flokks fólksins en Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins er fulltrúi þeirra í velferðarnefnd Alþingis en minnihlutarnir skiluðu nefndaráliti vegna frumvarpsins í dag.

„Það er og langt í frá að vera hafið yfir allan vafa að ótímabær fæðing við lok 22. viku þýði að fyrirburinn geti ekki lifað af. Um er að ræða aðgerð sem bindur enda á líf ófædds barns sem hugsanlega gæti lifað af fæðingu á þessu stigi meðgöngunnar. Læknar sverja eið að því að bjarga og vernda líf ef þess er nokkur kostur, ekki að eyða því. Þessi óhóflega rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni gengur þvert gegn sannfæringu og siðferði allra þeirra sem virða rétt ófædda barnsins til lífs,“ segir í nefndaráliti Flokks fólksins.

Flokkurinn leggst þá alfarið gegn hugtakanotkuninni „þungunarrof“.

„Fóstureyðing er hugtak sem endurspeglar þann verknað sem felst í aðgerðinni. Hugtakið þungunarrof er hins vegar tilraun til þess að horfa fram hjá alvarleika aðgerðarinnar og freista þess að færa hana í búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda endi á líf ófædds barns í móðurkviði“.


Tengdar fréttir

Óttast fjölda umsagna trúfélaga um frumvarp um þungunarrof

Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafelags Íslands, er ósátt við að óskað hafi verið eftir umsögnum þrjátíu og fimm trúfélaga um frumvarp um þungunarrof. Hún óttast að neikvæðar umsagnir kunni að hafa áhrif á að frumvarpið verði að lögum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.