Innlent

Þungunarrofsfrumvarp ýmist talið stærsta kvenfrelsismál aldarinnar eða siðferðislega rangt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra verður áfram rætt í velferðarnefnd Alþingis en næsti fundur er á mánudag.
Þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra verður áfram rætt í velferðarnefnd Alþingis en næsti fundur er á mánudag. FBL/EYÞÓR
„Við erum búin að ræða þennan vikufjölda fram og til baka,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar um heimild fyrir þungunarrofi fram að lokum 22. viku óháð því hvaða aðstæður liggja að baki vilja kvenna.

Þetta segir Halldóra í samtali við fréttastofu en Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, óskaði eftir því í ræðu sinni í gær að málið færi aftur til velferðarnefndar að lokinni 2. umræðu þingsins en sem nefndarmaður á hún rétt á því. Málið verður áfram rætt á fundi nefndarinnar á mánudaginn.

Frumvarp heilbrigðisráðherra var samþykkt á Alþingi að lokinni 2. umræðu nú síðdegis. Fjórða grein frumvarpsins, sem kveður á um að heimilt sé að rjúfa þungun að beiðni kvenna til loka 22. viku, reyndist mikið átakamál á þinginu. Fjórða greinin var þó samþykkt með 36 atkvæðum gegn 10.

Þrír ráðherrar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, Bjarni Benediktsson fjármála-og efnahagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra.

Átta þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, sjö úr Sjálfstæðisflokki og einn úr Framsóknarflokki.

Halldóra er ekki viss hvað Anna Kolbrún vill ræða frekar en grunar að málið snúist um vikufjölda frumvarpsins sem hefur verið mest umdeilt í þinginu. Halldóru finnst málið með öllu útrætt.

„Það tók mjög langan tíma í nefndinni að ræða þennan vikufjölda og mér fannst sem við værum komin á einhvern stað þar sem væri skilningur fyrir nauðsyn þess að hafa þetta í 22. vikum. Með 18. vikum værum við að takmarka núverandi rétt kvenna til þess að fara í þungunarrof,“ segir Halldóra. Hún ætlar að taka málið fyrir á mánudag og reyna í framhaldinu að koma málinu eins fljótt út úr nefndinni og hægt er.

Sjálf fagnaði Halldóra frumvarpinu í ræðu sinni sem hún hélt um atkvæðagreiðsluna í dag.

„Árið 1975 þegar núverandi löggjöf var samþykkt þá voru þrjár konur á þingi. Í dag erum við 24, við ættum að vera fleiri en við erum 24 og vonandi verður sú breyting á þessum lögum að við færum sjálfsákvörðunarréttinn til kvenna þegar kemur að ákvörðunum um þungunarrof.“

Halldóra segir frumvarpið tryggja sjálfsákvörðunarrétt kvenna upp að 22. vikum. Frumvarpið snúist þannig ekki um að víkka út heimildir heldur eingöngu um að tryggja rétt konunnar til að ráða sér sjálfri.

„Mig langar til þess að þakka hæstvirtum heilbrigðisráðherra fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp. Þetta er alveg magnað að við skulum loksins vera að færa þetta í rétt horf.“

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni að frumvarpið skipaði stórum hópum í samfélaginu í andstæðar fylkingar. „Um er að ræða siðferðileg álitamál; trúarleg og lögfræðileg og menningarlegur bakgrunnur svífur yfir vötnunum.“ Hann sagði að frumvarpið væri bæði stórkostlegt réttindamál og sögulegt.

Frumvarpið skipaði ekki eingöngu hópum í samfélaginu í andstæðar fylkingar heldur líka þingmönnum Alþingis. Á meðan flestir fögnuðu frumvarpinu og töluðu um sjálfsákvörðunarrétt kvenna voru nokkrir þingmenn, eins og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem sagðist líða illa yfir málinu því sér fyndist það siðferðilega rangt.

„Með frumvarpinu er lagt til að fóstureyðingar verði heimilaðar til loka 22. viku þungunar burtséð frá því hvort um heilbrigt barn er að ræða á þeim tímapunkti eða ekki. Það felur í sér eingöngu geðþóttaákvörðun móður“.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata sagði að í dag stæðu þingmenn frammi fyrir því að greiða atkvæði um eitt stærsta kvenfrelsismál Alþingis á öldinni. Hún sagði að þrátt fyrir að frumvarpið væri gríðarlegt fagnaðarefni afhjúpaði það raunverulega afstöðu nokkurra þingmanna til kvenna og sérfræðinga.

„Þessir háttvirtir þingmenn geta sagt „ég líka“ og „he for she“ en raunveruleg afstaða þeirra til kvenfrelsis birtist þegar greidd eru atkvæði um traust til sjálfsákvörðunarréttar kvenna til eigin líkama.“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvartaði yfir því að þingmenn hefðu flissað undir ræðu hans um þungunarrof. Hann taldi að ástæðan fyrir því væri sú að hann nálgaðist málið út frá kristilegum grunni.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagðist vera á milli steins og sleggju. Hann vildi tryggja sjálfsforræði kvenna en segist samt þurfa að staldra við 22. vikna þröskuldinn.

„Það eru líklegast fá mál sem eru viðkvæmari en spurningin um þungunarrof, eða fóstureyðingu, eins og ég hef vanist að tala um.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og nefndarmaður í velferðarnefnd Alþingis, lagðist gegn frumvarpinu og vill heldur að Alþingi ráðist í fræðslu og forvarnir. „Ég er einn af þessum körlum sem telja líf heilagt og ég er stoltur af því. Þess vegna mun ég segja nei við þessu frumvarpi.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagðist sannarlega styðja frumvarpið. Það gerði þingflokkur Viðreisnar í heild sinni því málið snerist um einstaklingsfrelsi.

„Ef við trúum á annað borð á það samfélag þar sem ríkir einstaklingsfrelsi og ábyrgð og við ráðum okkur sjálf og viljum byggja upp þannig samfélag.“

Frumvarpið snúist um frelsi konunnar til að ráða yfir eigin líkama, eigin lífi, eigin tilfinningum og eigin framtíð.


Tengdar fréttir

Óttast fjölda umsagna trúfélaga um frumvarp um þungunarrof

Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafelags Íslands, er ósátt við að óskað hafi verið eftir umsögnum þrjátíu og fimm trúfélaga um frumvarp um þungunarrof. Hún óttast að neikvæðar umsagnir kunni að hafa áhrif á að frumvarpið verði að lögum.

Þorsteinn bað Þórhildi Sunnu afsökunar á orðum sínum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í morgun undir liðnum fundarstjórn forseta og bað Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, afsökunar á orðum sínum á Alþingi í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×