Erlent

Handteknir eftir að lík tveggja kvenna fundust í frysti í Lundúnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tveir menn voru handteknir grunaðir um morð.
Tveir menn voru handteknir grunaðir um morð. vísir/getty
Lögreglan í Lundúnum hefur handtekið tvo menn eftir að lík tveggja kvenna fundust í frysti í heimahúsi í austurhluta borgarinnar. Mennirnir eru grunaðir um morð.

Annar þeirra var handtekinn í gær og hefur honum verið sleppt en hinn maðurinn var handtekinn í dag og er enn í haldi lögreglu.

Frekari upplýsingar hafa ekki fengist um málið frá lögreglunni að því er segir á vef Guardian en enn er unnið á vettvangi glæpsins við götuna Vandome Close í Canning Town-hverfinu í Austur-Lundúnum. Lík kvennanna fundust þar síðastliðinn föstudag við leit lögreglu.

Lögreglan hafði meðal annars sýnt nágrönnum mynd af konu sem hafði verið saknað í um ár þar sem grunur leikur á að hún sé önnur þeirra sem fundust í frystinum.

Í húsinu þar sem líkin fundust eru sex íbúðir. Að því er fram kemur í frétt Guardian eru íbúar í hverfinu harmi slegnir vegna málsins.

„Ég er furðulostinn. Við stöndum saman hérna og allir þekkja alla,“ sagði einn nágranni sem ekki vildi láta nafns síns getið.

„Ég var að komast að því að önnur kvennanna var vinkona mín. Ég er í sjokki. Ég hef búið hér í 38 ár, allt mitt líf. Hún var ein yndislegasta manneskja sem ég hef hitt. Hún var svo hugulsöm, hún hefði gefið þér síðasta penníið sitt,“ sagði annar nágranni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×