Innlent

Gæsluvarðhald framlengt vegna brunans á Selfossi: Ekki fallist á að fyrri úrskurðir væru ógildir vegna dóms MDE

Sylvía Hall skrifar
Í málsvörn ákærða var vísað til fyrri úrskurða Landsréttar um gæsluvarðhald yfir ákærða og því haldið fram að fyrri úrskurðir væru ekki gildir í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars.
Í málsvörn ákærða var vísað til fyrri úrskurða Landsréttar um gæsluvarðhald yfir ákærða og því haldið fram að fyrri úrskurðir væru ekki gildir í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars. Vísir/Sigurjón
Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að framlengja gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um að hafa valdið eldsvoðanum á Selfossi þann 31. október á síðasta ári sem varð tveimur að bana.

Í málsvörn ákærða var vísað til fyrri úrskurða Landsréttar um gæsluvarðhald yfir ákærða og því haldið fram að fyrri úrskurðir væru ekki gildir í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars síðastliðnum. Vildi verjandi ákærða meina að sömu sjónarmið ættu við í þessu máli vegna skipan eins dómara sem kveðið hefur upp fyrri gæsluvarðhaldsúrskurði og væru þeir því ógildir. Þá hélt hann því fram að ströngum skilyrðum um gæsluvarðhald væri ekki fullnægt.

Sjá einnig: Segir húsráðanda á Kirkjuvegi hafa kveikt í gardínum eftir rifrildi

Landsréttur féllst ekki á þau rök að niðurstaða Mannréttindadómstólsins ætti að leiða til þess að kröfu Héraðssaksóknara yrði hafnað og var fallist á það með ákæruvaldinu að hinn ákærði væri undir sterkum grun að hafa gerst sekur um refsiverðan verknað sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Ákærði var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald þar til dómur fellur í málinu en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. maí en ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 1. nóvember. Vegna alvarleika brotsins var gæsluvarðhald talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Málið var þingfest þann 24. janúar og er ákærða gefið að sök brenna og manndráp, til vara brenna og manndráp af gáleysi, með því að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum á neðri hæð hússins. Með því hafi hann valdið eldsvoða með þeim afleiðingum að maður og kona létust á efri hæð hússins en ákærði er sagður ekki hafa gert tilraun til þess að vara þau við eldinum né komið þeim til bjargar áður en hann yfirgaf húsið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×