Innlent

Eldsvoðinn á Selfossi: Annar ákærðu krafinn um 25 milljónir

Atli Ísleifsson skrifar
Húsið sem brann stóð við Kirkjuveg 18.
Húsið sem brann stóð við Kirkjuveg 18. vísir/mhh
Aðstandendur konu sem létu lífið í eldsvoða á Kirkjuvegi á Selfossi í lok október síðastliðnum hafa krafið karlmann, sem ákærður er fyrir manndráp í málinu, um 25 milljónir króna í bætur.

RÚV greinir frá þessu en ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.

Er maðurinn ákærður fyrir brennu og manndráp en brennu og manndráp af gáleysi til vara. Kona, sem einnig var handtekin vegna brunans, er ákærð fyrir að láta líða hjá að gera það sem í hennar valdi stóð til að þess að vara við eða afstýra eldsvoðanum. 

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar kom fram að karlinn og konan sem voru handtekin hafi verið í annarlegu ástandi og undir miklum áhrifum áfengis auk lyfja og/eða fíkniefna þegar lögreglu bar að garði.

Hafði maðurinn þá kveikt í pítsukössum og gardínum sem varð til þess að mikill eldur blossaði upp í húsinu. Hin látnu voru í herbergi á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp.

Athugasemd: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að aðstandendur karlsins og konunnar, sem létust í brunanum hafi lagt fram bótakröfunna. Hið rétta er að einungis aðstandendur konunnar hafa lagt fram slíka kröfu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×