Innlent

Segir sjúkraliða ekki hafa sömu rödd innan Landspítalans

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Vísir/Egill
Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir að félagsmenn hafi ekki sömu rödd innan Landspítalans og hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, sem séu aðilar að Hjúkrunarráði spítalans sem standi vörð um hagsmuni þeirra. Sjúkraliðafélagið hafi sótt um aðild að hjúkrunarráði en umsókninni hafi verið hafnað. Formaður kennir hugsunarleysi stjórnvalda um. 

Hjúkrunarráð Landspítalans starfar í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu en í því eiga sæti allir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður spítalans. Ráðið er forstjóra og framkvæmdastjórn spítalans til ráðuneytis varðandi málefni hjúkrunar, rekstur, stjórnun uppbyggingu og nýtingu sjúkrahússins. Þá er það stjórnendum heilbrigðismála utan spítalans til ráðuneytis sé eftir því leitað. Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir mikilvægt að félagið eigi aðild að hjúkrunarráði.

„Við sóttum formlega um aðild að ráðinu og það mál hefur verið tekið fyrir á aðalfundi ráðsins. Það fékk í raun og veru ekki brautargengi þar því að menn töldu að þetta mál þyrfti að kynna betur, bæði fyrir sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum,“ segir Sandra. Hún telur um hugsunarleysi stjórnvalda að ræða.

„Ég hugsa að þetta hafi nú verið bara ákveðið hugsunarleysi stjórnvalda um að ráðið myndi ekki gera ráð fyrir öllum hjúkrunarstéttum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.“Hún segir að aðild að félagsmanna að hjúkrunarráði spítalans myndi breyta miklu.

„Það myndi breyta því að þá hefðu þeir allavega aðkomu að þessum vettvangi um að láta sina rödd heyrast um hvað eina sem brennur á þeim hverju sinni, líkt og hjúkrunarfræðingar gera.“

Sandra B. Franks bindur vonir við að þessu verði breytt og félagsmenn sínir fái rödd innan Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×