Innlent

Ísland líklega dýrast fyrir ferðamenn

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ísland er ekki fyrir léttari pyngjur.
Ísland er ekki fyrir léttari pyngjur. Fréttablaðið/Anton Brink
Ísland er um þessar mundir dýrasta land Evrópu og að öllum líkindum einn dýrasti áfangastaður heims fyrir ferðamenn. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka.

Verðlag á Íslandi var 84 prósentum hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2017. Ferðamaðurinn greiðir því næstum tvöfalt hærra verð hér en að meðaltali innan ESB.

Verðlag á algengum vörum og þjónustu sem ferðamenn sækjast eftir hefur hækkað langt umfram verðlag í Evrópu undanfarinn áratug og má sem dæmi nefna að verð áfengra drykkja er í dag hátt í þrefalt hærra en að meðaltali í ESB.

Á árinu 2010 var verðlag í Noregi og í Danmörku á sömu vöru- og þjónustuflokkum hærra en á Íslandi og var Ísland í þriðja sæti, á pari við Sviss sem var í fjórða sæti yfir Evrópuþjóðir með hæsta verðlagið fyrir ferðamenn. Þá var verðlag hér á landi um þriðjungi hærra (32 prósent) en að meðaltali í aðildarríkjum ESB. Munur á verðlagi hér og að meðaltali hjá aðildarríkjum ESB hefur því hækkað um 52 prósentustig frá árinu 2010. Krónan styrktist á sama tímabili um 26 prósent og má því gróflega áætla að gengisáhrif skýri um helming áðurgreindrar hækkunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×