Erlent

Vopnaðir ræningjar stálu milljónum evra úr flugvél

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvél flugfélagsins Austrian Airlines.
Flugvél flugfélagsins Austrian Airlines. Getty/Nicolas Economou
Lögregla í Albaníu handtók fjóra og yfirheyrði fjörutíu til viðbótar eftir að vopnaðir ræningjar höfðu á brott með sér milljónir evra úr farþegaflugvél austurríska flugfélagsins Austria Airlines í gær. Lögregla skaut einn ræningjanna til bana við eftirför í kjölfar ránsins.

Ræningjarnir brutu sér leið inn á flugbrautina á alþjóðaflugvellinum í albönsku borginni Tirana og stálu fénu, sem flytja átti í banka í Vín með flugvélinni. Upphæðin nam að minnsta kosti 2,5 milljónum evra, eða um 334 milljónum íslenskra króna, þó líklegt sé talið að ræningjarnir hafi haft töluvert meira fé upp úr krafsinu.

Einn ræningjanna lést í átökum við lögreglu en samkvæmt frétt Deutsche Welle hafði lögregla hendur í hári þeirra um kílómetra frá flugvellinum. Ræningjarnir stálu peningunum þar sem verið var að flytja þá yfir í flugvélina en samkvæmt talsmanni flugfélagsins voru farþegar eða áhöfn aldrei í hættu.

Umræddu flugi frá Tirana til Vínar var seinkað um þrjár klukkustundir vegna ránsins. Þá hefur breska dagblaðið The Guardian eftir talsmanni flugfélagsins að reiðufjárflutningar milli borganna verði stöðvaðir tímabundið í ljósi málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×