Erlent

Þrír látnir eftir flug­slys á Lukla-flug­velli í Nepal

Atli Ísleifsson og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Lukla-flugvöllur hefur lengi verið talinn einn hættulegasti flugvöllur í heimi.
Lukla-flugvöllur hefur lengi verið talinn einn hættulegasti flugvöllur í heimi.
Þrír eru látnir og fjórir slasaðir eftir að flugvél rann útaf flugbrautinni á flugvellinum í Lukla í Nepal í morgun.

Flugvöllurinn hefur lengi verið talinn einn hættulegasti flugvöllur í heimi en flugvélin var í flugtaki þegar hún rann út af flugbrautinni og lenti á þyrlu. Flugvöllurinn hefur stutta flugbraut og erfið skilyrði og einungis opinn þyrlum og smærri flugvélum.

Bæði flugvélin og þyrlan sjá um að ferja ferðamenn og heimamenn í átt að Everest-fjalli. Flugvélin var af gerðinni Twin Otter og í eigu Summit Air.

Hinir slösuðu voru fluttir til Kathmandu, höfuðborgar Nepals, þar sem þeir fengu aðhlynningu á sjúkrahúsi. Þeir sem léstust voru flugmaður flugvélarinnar og tveir lögreglumenn sem stóðu nærri þyrlunni þegar slysið átti sér stað. Fjórir farþegar og flugliði í flugvélinni sluppu við meiðsli að því að fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar.

Sjá má myndskeið AP frá flugvellinum að neðan.

Síðast varð flugslys á svæðinu í maí 2017 þegar flugvél í aðflugi að flugvellinum missti hæð og skall á fjallshlíðinni neðan flugbrautarinnar og fórust flugmenn vélarinnar. Slæmu skyggni var kennt um það slys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×