Fótbolti

Mikilvægur sigur Alfreðs og Aron skoraði í sigri Start

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alfreð í leik með Augsburg.
Alfreð í leik með Augsburg. vísir/getty
Alfreð Finnbogason spilaði í 83 mínútur er Augsburg vann 3-1 útisigur á Eintracht Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Augsburg skipti um þjálfarateymi í vikunni en Martin Schmidt náði sigri í sínum fyrsta leik í stjórastólnum. Augsburg er í fjórtánda sæti deildarinnar með 28 stig.

Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Malmö sem vann 2-0 sigur á Östersunds í sænsku úrvalsdeildinni en þetta var fyrsti sigur Malmö í fyrstu þremur leikjunum.

Arnór Ingvi var tekinn af velli á 85. mínútu en Marcus Antonsson og Markus Rosenberg skoruðu mörk Malmö sem er í sjöunda sæti sænsku deildarinnar.

Aron Sigurðarson skoraði fyrra mark Start sem vann 2-1 sigur á Raufoss í norsku B-deildinni í knattspyrnu. Aron spilaði fyrstu 82 mínúturnar og Kristján Flóki Finnbogason 59 mínútur en Start er með sex stig eftir þrjá leiki.

Ögmundur Kristinsson fékk á sig eitt mark er Larissa gerði 1-1 jafntefli við topplið PAOK í grísku úrvalsdeildinni. Sverrir Ingi Ingason sat allan tímann á bekknum hjá PAOK sem er langleiðina búið að tryggja sér titilinn. Larissa er í 10. sætinu.

Rostov vann 2-1 sigur á Spartak Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni. Ragnar Sigurðsson spilaði allan tímann í vörn liðsins en Björn Bergmann Sigurðarson spilaði síðustu tólf mínúturnar. Rostov er í 6. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×