Erlent

Segir Trump vita manna best að hann sé óhæfur forseti

Kjartan Kjartansson skrifar
Pelosi hefur komist upp með að skamma Trump forseta en í þetta skiptið svaraði forsetinn fyrir sig á Twitter.
Pelosi hefur komist upp með að skamma Trump forseta en í þetta skiptið svaraði forsetinn fyrir sig á Twitter. Vísir/EPA
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segist telja að Donald Trump viti manna best að hann sé ekki hæfur til að gegna embætti forseta. Ummælin fóru öfugt ofan í Trump sem svaraði með því að kalla Pelosi „hörmung“.

Í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 mínútur ræddi Pelosi, sem er áhrifamesti demókratinn á Bandaríkjaþingi, meðal annars um forsetann og samskipti sín við hann.

„Það er enginn í landinu sem veit betur að hann ætti ekki að vera forseti Bandaríkjanna en Donald Trump,“ fullyrti Pelosi sem hefur verið afar gagnrýnin á forsetann.

Sagðist hún virða embætti forsetans og að Trump væri ekki þess verður að neita að vinna með honum vegna þess hversu hræðilegur hann sé.

„Nei. Við verðum að vinna saman,“ sagði Pelosi.

Fram að þessu hefur Trump virst hikandi við að ráðast á Pelosi með sama hætti og hann gerir ítrekað þegar aðrir pólitískir andstæðingar eiga í hlut. Að þessu sinni tók hann skoti Pelosi ekki sitjandi. Í tísti sakaði hann hana um að koma engum málum í gegnum þingið og undir stjórn hennar geri það ekki annað en að rannsaka meinta glæpi.

„Hún var hörmung í H.H.,“ tísti Trump og vísaði til Hvíta hússins. Ekki er ljóst hvað forsetinn átti við með þeim ummælum en Pelosi hefur aldrei starfað í Hvíta húsinu.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×