Erlent

Segja ó­ljóst hvort takist að bjarga Notre Dame

Atli Ísleifsson skrifar
Eyðileggingin er gríðarleg.
Eyðileggingin er gríðarleg. EPA/IAN LANGSDON
Talsmenn franska innanríkisráðuneytisins segja að það „sé ekki víst“ hvort það muni takast að bjarga Notre Dame eftir að gríðarmikill eldur kom upp í dómkirkjunni í kvöld.

AFP segir frá þessu en tilkynningin kemur í kjölfar svipaðrar tilkynningar frá slökkiliði borgarinnar. Sagði talsmaður þess að „óvíst“ væri hvort að hægt verði að stöðva eldinn. Talsmaður slökkviliðs hefur einnig sagt að næsti klukkutíminn myndi ráða því hvort að hægt verði að ná tökum á eldinum.

Eldurinn kom upp skömmu eftir að kirkjunni var lokað fyrir almenningi klukkan 18:45 að frönskum tíma.



Þak dómkirkjunnar hefur nú þegar fallið saman og hefur kirkjuspíran hrunið. Þá hefur viðargrind kirkjunnar sem reist var á miðöldum orðið eldinum að bráð, auk þess að fréttir hafa borist af því að eldurinn hafi náð til annars af tveimur turnum kirkjunnar.

Alls taka um 400 slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfinu. Ekki er notast við slökkviflugvélar og þyrlur þar sem slík noktun gæti leitt til að byggingin öll myndi hrynja og falla saman.

Notre Dame kirkjan er eitt helsta kennileiti frönsku höfuðborgarinnar og var hún reist á árunum 1163 til 1345. Kirkjan er byggð í gotneskum stíl og stendur á Ile de la Cité, annarri af tveimur eyjum Signu, í fjórða hverfi Parísar. 

Framkvæmdir við byggingu Notre Dame hófust árið 1160 og var verkinu að mestu lokið árið 1260.


Tengdar fréttir

Listaverkasafni Notre Dame bjargað

Öllum listaverkum sem geymd voru í Notre Dame dómkirkjunni í París hefur verið bjargað frá stórbrunanum sem kom upp í kvöld. Frá þessu var greint í fréttaflutningi France24.

Notre Dame dómkirkjan brennur

Slökkvilið í París í Frakklandi berst nú við mikinn eld í hinni sögufrægu dómkirkju Notre Dame.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×